Skip to main content
7. apríl 2015

Peter Holbrook hlýtur alþjóðleg verðlaun

""

Peter Holbrook, prófessor við Tannlæknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í lyflæknisfræði munnhols á Landspítalanum, fékk á dögunum afar virt vísindaverðlaun frá alþjóðlegum samtökum sem helguð eru rannsóknum í tannlæknisfræði (IADR). Verðlaunin eru veitt fyrir mikilvægt framlag til rannsókna á sviði lyfjaþróunar í munnlyflæknisfræði.  Verðlaunin, sem veitt eru árlega, voru afhent við hátíðlega athöfn í Boston í Bandaríkjunum í marsmánuði og flutti þá Peter erindi um nýjungar í lyfjameðferð í munnholi.

Í umsögn samtakanna segir að verðlaunin séu veitt fyrir framúrskarandi rannsókn sem er einkar mikilvæg fyrir þróun á lyfjum í tannlæknisfræði á alþjóðavettvangi.

Peter Holbrook hefur verið einn ötulasti vísindamaður Tannlæknadeildar Háskóla Íslands um árabil og er mikilsvirtur innan lands sem utan. Á undanförnum árum hefur hann unnið að rannsóknum og þróun á lyfjaformum til notkunar gegn ýmsum sjúkdómum á munnslímhúð, m.a. sýkingum af völdum baktería, sveppum og veirum ásamt sárum í munni. Rannsóknirnar hefur hann unnið í samstarfi við vísindamenn við Lyfjafræðideild og Raunvísindadeild háskólans.

Rannsóknarhópurinn stofnaði sprotafyrirtækið Líf-Hlaup árið 1998, sem m.a. vinnur að þróun lyfja gegn herpes-sýkingum og munnangri. Árið 2005 var fyrirtækið sameinað sprotafyrirtækinu LipoMedica undir merkjum LífHlaups en sama ár hlutu stofnendur fyrirtækisins, Peter Holbrook, Þórdís Kristmundsdóttur, prófessor við Lyfjafræðideild, Halldór Þormar, prófessor emeritus við Líffræðistofnun háskólans, og Skúli Skúlason, framkvæmdarstjóri LífHlaups, alþjóðleg verðlaun IADR/Glaxo fyrir nýsköpun í meðferð munnholssjúkdóma.

Peter Holbrook lauk námi í tannlæknisfræði frá Edinborgarháskóla árið 1972 og doktorsprófi  í örverufræði munns frá sama háskóla árið 1976. Síðar lauk hann sérfræðinámi í örverufræði- og lyflæknisfræði munns. Peter hóf störf við Tannlæknadeild Háskóla Íslands árið 1981. 

Sjá nánar á vefsíðu samtakanna IADR (International Association for Dental Research) (hlekkurinn var brotinn og tekinn út).

Peter Holbrook, prófessor við Tannlæknadeild hlaut á dögunum afar virt alþjóðleg verðlaun, fyrir framúrskarandi rannsókn í munnlyflæknisfræði.