Ragga´s Angels vann LEGO-hönnunarkeppni FLL
Liðið Ragga´s Angels úr Garðaskóla í Garðabæ sigraði í tækni- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League sem fram fór í dag í Háskólabíói. Um leið vann liðið sér inn þátttökurétt í norrænum keppnum FIRST LEGO League sem fara fram um næstu mánaðamót.
Tækni- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League hefur það að markmiði að auka áhuga ungs fólks á tækni og vísindum og efla færni og lausnarmiðaða hugsun. Í keppninni reynir á nýsköpunarhugsun og samskipta- og samstarfshæfni liða en um leið er ætlunin að efla sjálfstraust ungs fólks.
Sextán lið, sem hafa undirbúið sig af kappi í allt haust, tóku þátt í keppninni. Hún byggist á spennandi verkefnum sem flest tengjast þema keppinnar ár hvert. Þemað í ár bar heitið Meistaraverkefni (MASTERPIECE) og tengist listum og menningu. Þannig áttu liðin kanna listheiminn, hvaðan list er sprottin og hvernig henni er miðlað og beita aðferðum rannsókna og
nýsköpunar og ímyndunaraflinu við að finna nýjar leiðir til að skapa og miðla list um heim allan.
Auk þess kepptu liðin í svokölluðum vélmennakappleik þar sem þau áttu að forrita vélmenni úr tölvustýrðu LEGOi til að leysa tilteknar þrautir á þrautabraut. Jafnramt áttu þau að gera grein fyrir því hvernig þau hönnuðu og forrituðu vélmennið og loks var horft sérstaklega til liðsheildar.
Þegar upp var staðið reyndist liðið Ragga´s Angels úr Garðaskóla sigurvegari í heildarkeppninni. Í verðlaun fékk liðið forláta bikar úr LEGO-kubbum og 200 þúsund krónur í verðlaunafé. Jafnframt býðst liðinu að taka þátt í norrænni keppni FIRST LEGO League um næstu mánaðamót. Valið stendur á milli Skandinavísku keppninnar í Noregi, þar sem norsk og sænsk lið taka þátt, og dönsku lokakeppninnar þar sem dönsk og færeysk lið etja kappi. Liðið sigraði einnig í vélmennakappleik og hlaut viðurkenningu fyrir besta hönnun og forritun á vélmenni.
Úrslit keppninnar voru í heild svohljóðandi:
Íslandsmeistarar First Lego League 2023
Sigurvegarar: Ragga's Angels (Garðaskóli)
2.-3.sæti : DODICI- (Vopnafjarðarskóli), VR Masters (Landakotsskóli)
Besta Liðsheild
Sigurvegarar: Þræðirnir (Brúarásskóli)
2.-3. sæti: Mathsters (Landakotsskóli), DODICI- (Vopnafjarðarskóli)
Besta nýsköpunarverkefnið
Sigurvegarar: El Grilló (Seyðisfjarðarskóli)
2.-3.sæti: VR Masters (Landakotsskóli), Ragga's Angels (Garðaskóli)
Besta hönnun og forritun á vélmenni
Sigurvegarar: Ragga's Angels (Garðaskóli)
2.-3.sæti: DODICI- (Vopnafjarðarskóli), SUBUWU (Háaleitisskóli)
Vélmennakappleikur
Sigurvegarar: Ragga's Angels (Garðaskóli)
2.-3.sæti: DODICI- (Vopnafjarðarskóli), VR Masters (Landakotsskóli
Háskóli Íslands heldur utan um tækni- og hönnunarkeppnina FIRST LEGO League á Íslandi.