Rannsaka áhrif blöðruþangs á bólguþætti
Rannsóknastofa Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum (RHLÖ) og Matís rannsaka nú áhrif blöðruþangs á bólguþætti hjá of þungum fullorðnum einstaklingum og leita nú þátttakenda fyrir rannsóknina. Markmið rannsóknarinnar, sem hlotið hefur samþykki Vísindasiðanefndar, er jafnframt að kanna hvort blöðruþang hafi áhrif á aðrar lífeðlisfræðilegar breytur eins og blóðsykur og blóðfitur.
Blöðruþang eða bóluþang er að finna víða í fjörum landsins, en það er m.a. ríkt af joði, ómeltanlegri sterkju, salti og lífvirkum efnum. „Blöðruþangsduft verður til þegar ákveðin lífvirk efni eru dregin út úr blöðruþanginu og einangruð. Þessi lífvirku efni eru sett í hylki úr gelatíni til að auðvelda inntöku. Notkun á blöðruþangi til manneldis er þekkt og rannsóknir á lífvirkum efnum í blöðruþangi benda til þess að duft úr blöðruþangi geti haft jákvæð áhrif á bólgur og blóðsykur,“ segir Aníta Sif Elídóttir, næringarfræðingur og starfsmaður á Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, sem kemur að framkvæmd rannsóknarinnar, en ábyrgðarmaður hennar er Alfons Ramel, prófessor við deildina.
Aníta segir að aðstendur rannsóknarinnar leiti að þátttakendum fyrir rannsóknina sem þurfa að vera 40 ára eða eldri með líkamsþyngdarstuðul (BMI) ≥ 27 kg/m2 (sjá nánar töflu með útreiknuðum líkamsþyngdarstuðli hér að neðan) og mittisummál yfir 88 sm hjá konum og yfir 102 sm hjá körlum. „Þátttakendur sem stunda hreyfingu meira en 30 mínútur á dag eru útilokaðir frá þátttöku sem og þungaðar konur eða konur með barn á brjósti. Einstaklingar sem hafa samband og hafa áhuga að taka þátt í rannsókninni þurfa jafnframt að draga úr neyslu á matvælum sem innihalda omega-3 og forðast lýsi í tvær vikur áður en íhlutun hefst og meðan á þátttöku stendur,“ segir Aníta enn fremur.
Í rannsókninni verður þátttakendum skipt af handahófi upp í tvo hópa sem fá annað hvort blöðruþangsduft (3 hylki = 1200 mg/dag) eða lyfleysuduft (3 hylki/dag) í 10 vikur. „Þátttaka í rannsókninni felst í því að mæta í byrjun og lok tímabils í líkamsmælingar og lífssýnatöku ásamt því að svara almennum spurningalista um mataræði og heilsufar við upphaf rannsóknar. Framkvæmdar verða mælingar á líkamssamsetningu, mittisummáli, hæð og þyngd auk þess sem við munum mæla bólguþætti, blóðsykur og fitur í blóði,“ segir Aníta.
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í rannsókninni eru beðnir um að hafa samband við Anítu í síma 844-7131 eða senda tölvupóst á anitas@landspitali.is.