Rannsakar hegðunarvanda barna í Malaví
„Rannsóknir hafa sýnt að börn sem fá heilahimnubólgu af völdum malaríu fara oft að sýna hegðunarvanda sem líkist einkennum ADHD, geta t.d. verið með athyglisbrest, eiga erfitt með að einbeita sér og vera kyrr,“ segir Guðlaug María Sveinbjörnsdóttir, meistaranemi við Sálfræðideild Háskóla Íslands, sem ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í lokaverkefni sínu í í klínískri sálfræði. Hún heldur til Malaví í sumar þar sem hún ætlar að rannsaka hegðunarbreytingar hjá börnum sem fengið hafa heilahimnubólgu af völdum malaríu og þau úrræði sem í boði eru við hegðunarvanda í þessu fátæka landi í suðausturhluta Afríku. Guðlaug stendur nú fyrir söfnun fyrir ferðinni en markmið hennar er að finna leiðir til veita aðstoð sem gagnast börnum með hegðunarvanda í Malaví og jafnvel annars staðar í Afríku.
Guðlaug segist hafa mikinn áhuga á ADHD en hugmyndin að þessu óvenjulega verkefni kviknaði í ferð sem Guðlaug fór í með föður sínum, Sveinbirni Gizurarsyni, prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands, til Malaví síðasta sumar. „Pabbi var í rannsóknarferð og ég fékk að fara með en ég var að hjálpa honum meðal annars við að skoða meðferðarheldni sjúklinga sem eru með berkla og eru ólæsir. Ég heillaðist af landi og þjóð og sérstaklega börnunum,“ segir hún.
Á ferð sinni um Malaví komst Guðlaug að því að lítil sem engin sálfræðiþjónusta eða sálfræðimeðferðir væru boði fyrir börn í Malaví. „Við funduðum með bandarískum sérfræðingi, dr. Terry Taylor, sem er að skoða börn sem fá heilahimnubólgu af völdum malaríu. Hún sagði mér að þau börn sem fá þessa alvarlegu gerð af malaríu fari oft að hegða sér á svipaðan hátt og börn sem eru með ADHD. Foreldrar eru þá oft gagnrýndir fyrir að hafa ekki stjórn á börnunum og ala þau ekki nægilega vel upp. Þá eru börnin stundum talin vera haldin illum öndum og þau lokuð inni eða særingarmenn látnir meðhöndla þau,“ segir Guðlaug.
Hugmyndin að þessu óvenjulega lokaverkefni kviknaði í ferð sem Guðlaug fór í með föður sínum, Sveinbirni Gizurarsyni, prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands, til Malaví síðasta sumar.
Vonast til að finna leiðir til að aðstoða börn og foreldra
Guðlaug segir markmið verkefnisins tvíþætt. „Í fyrsta lagi að kanna hvaða aðferðir foreldrar í Malaví nota þegar kemur að uppeldi barna sinna, sérstaklega þegar börnin sýna óæskilega hegðun. Í öðru lagi að hitta foreldra barna sem hafa fengið heilahimnubólgu af völdum malaríu og ræða við þau um þær breytingar sem orðið hafa á hegðun barna þeirra eftir sjúkdóminn,“ segir Guðlaug sem vinnur lokaverkefnið undir leiðsögn Urðar Njarðvík, dósents við Sálfræðideild.
Malaría eða mýrarkalda, eins og sjúkdómurinn hefur verið nefndur á íslensku, hefur lengi verið mikið vandamál í hitabeltislöndum en langstærstur hluti malaríutilfella greinist í Afríku. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að yfir 200 milljónir manna hafi veikst af völdum sjúkdómsins árið 2016 og að á bilinu 445-731 þúsund hafi látist af hennar völdum sama ár. Guðlaug segir að í þeim löndum þar sem malaría er vandamál fái um 1,1% heilahimnubólgu af völdum sjúkdómsins. Vandinn sé ekki bara bundinn við Malaví.
„Í ferðinni í sumar vonast ég til þess að fá góða mynd af stöðunni þannig að hægt sé að finna leiðir til að veita aðstoð sem gagnast börnum í Malaví og jafnvel annars staðar í Afríku. Þekking á hegðun og sérstaklega ástæðum hegðunarbreytinga getur hjálpað foreldrum að styðja börnin sín í stað þess að þau þurfi upplifa útskúfun af hálfu fjölskyldu og samfélags,“ segir Guðlaug enn fremur.
Guðlaug heldur utan í lok júní ásamt kærasta sínum, Birki Ásgeirssyni, sem hyggst vinna myndbandsefni um förina. Þau munu heimsækja svæði þar sem tíðni heilahimnubólgu af völdum malaríu er há. „Við byrjum í Lilongwe, höfuðborg Malaví, og nágrenni, og höldum síðan til Blantyre, sem kallast viðskiptahöfuðborg Malaví. Ég geri ráð fyrir að verja um tveimur vikum í gagnasöfnun á meðan við erum þar,“ segir Guðlaug enn fremur.
Töluverður kostnaður fylgir ferð sem þessari sem tengist bæði ferðalögum, þýðingar- og túlkastarfi á staðnum og greiðslum til foreldra og aðstoðarfólks. Því hefur Guðlaug ýtt af stað söfnun fyrir ferðinni á vefsíðu verkefnisins.
Þar eru einnig frekari upplýsingar um verkefnið en einnig verður hægt að fylgjast með þeim Guðlaugu og Birki á Instragram-reikningi ferðarinnar í sumar.