Rannsókn varpar nýju ljósi á erfðafræði brjóstakrabba
Alþjóðlegum hópi vísindamanna hefur tekist að draga upp afar skýra mynd af þeim stökkbreytingum í erfðaefni sem talin eru geta valdið brjóstakrabbameini. Rannsókninni hefur verið lýst í fræðasamfélaginu sem tímamótarannsókn sem talin er geta rutt veginn fyrir betri forvarnir og lækningu gegn sjúkdómnum og var greint var frá niðurstöðum hennar í hinu virta vísindatímariti Nature í liðinni viku. Tveir íslenskir vísindamenn, Jórunn Erla Eyfjörð prófessor og Ólafur Andri Stefánsson nýdoktor, bæði við Lífvísindasetur Háskóla Íslands, koma að rannsókninni og flutti annar stjórnenda rannsóknarinnar, Serena Nik-Zainal við Sanger Institute í Bretlandi, erindi um rannsóknina á málþingi til heiður Jórunni Erlu síðastliðinn föstudag.
Rannsóknin er sú viðamesta sem unnin hefur verið á erfðaefni brjóstakrabbameina til þessa en í henni var gerð ítarleg rannsókn á öllu erfðaefni 560 brjóstakrabbameina og áhrifum erfðabreytinga á það. Alls fundust krabbameinsvaldandi stökkbreytingar í 93 genum, þ.e. 93 gen sem geta breytt heilbrigðri brjóstvefsfrumu í krabbameinsfrumu. Stökkbreyting í einu slíku geni í eðlilegri frumu getur átt þátt í að breyta henni í krabbameinsfrumu. Genin eru öll mikilvæg en vægi þeirra í myndun krabbameins er þó mismikið þegar litið er á heildarhópinn. Þannig kemur í ljós að um 60% af þeim stökkbreytingum sem gegna lykilhlutverki í brjóstakrabbameini má rekja til aðeins 10 gena.
Íslensk BRCA2-stökkbreyting hefur sömu æxlisframvindu og aðrar slíkar
Við þetta má bæta að stökkbreytingar í erfðaefni skilja eftir sig ákveðið mynstur eða fingrafar í erfðaefninu og þess vegna var hægt að skilgreina 12 mismunandi gerðir skemmda sem valda skaða og leiða til sjúkdómsmyndunar. Orsakir þessara 12 mismunandi „fingrafara“ í erfðaefninu voru í sumum tilfellum þekktar, s.s. endurröðunarmynstur í tengslum við stökkbreytingar í genum sem nefnast BRCA1 og BRCA2, en flest tilfelli ættgengs brjóstakrabbameins tengjast stökkbreytingum í þeim.
Rannsóknarhópur Jórunnar Erlu Eyfjörð hafði áður borið kennsl á stökkbreytingu í geninu BRCA2 999del5 hér á landi og tengt hana auknum líkum á brjóstakrabbameini innan fjölskyldna á Íslandi. Rannsóknin, sem sagt er frá í Nature, staðfestir að þessi stökkbreyting hafi sömu áhrif á æxlisframvindu og aðrar BRCA2-stökkbreytingar. Rannsóknin staðfestir jafnframt að BRCA2 999del5 æxli skiptist í misalvarlega undirflokka. Þessi áhrif koma fram í endurröðunarmynstri erfðaefnis í æxlum úr íslenskum BRCA2 999del5 arfberum.
Athyglisvert er að sum mynstur tengjast vörnum líkamans gegn veirusýkingum. Varnarkerfi sem þróast hafa til þess að brjóta niður veiru-DNA geta í sumum tilfellum valdið skemmdum á eigin erfðaefni.
Frekari rannsókna er þörf til þess hægt sé að skilja sjúkdóminn betur, en vonir standa til að þessi ítarlega greining á stökkbreytingamynstri í æxlisvef opni nýja möguleika til greininga og sértækrar meðferðar.
Sviperfðir gegna mikilvægu hlutverki í brjóstakrabbameinum
Greining á sviperfðabreytingum var einnig hluti rannsóknarinnar en að þeim kom Ólafur Andri Stefánsson, nýdoktor við Rannsóknarstofu í krabbameinsfræðum við Lífvísindasetur Háskólans. Segja má að sviperfðir séu þættir sem stjórna því hvernig erfðaefnið er notað og er m.a. nauðsynlegt í þroskun og frumusérhæfingu. Með sviperfðum eða umframerfðum er erfðaefnið „merkt“ í þeim tilgangi að tilgreina hvaða hlutar þess eiga að vera í notkun hverju sinni. Í ljós kom í rannsókninni að BRCA1-genið verður ekki aðeins óvirkt með stökkbreytingum í geninu heldur einnig í því að sviperfðir verða óvirkar. Það staðfestir fyrri niðurstöður sem komu fram í doktorsnámi Ólafs Andra undir leiðsögn Jórunnar Erlu. BRCA1-genið er þannig gert óvirkt í mun stærri hóp sjúklinga en eingöngu þeim sem hafa stökkbreytingu í BRCA1-geni.
Allar þær upplýsingar, sem koma fram í rannsókninni, verða nú gerðar aðgengilegar rannsakendum í háskólum, lyfjafyrirtækjum og líftæknifyrirtækjum sem geta nýtt þær til þróunar sértækra lyfja og meðferðarúrræða.
Jórunn heiðruð fyrir mikilvægt framlag til krabbameinsrannsókna
Fjöldi vísindamanna frá ýmsum helstu vísindastofnunum heims á sviði krabbameinsrannsókna kom að rannsókninni sem sagt er frá í Nature en þess má geta að ítarlegri grein um rannsóknina birtist einnig ritinu Nature Communications.
Rannsókninni stýrðu Mike Stratton og Serena Nik-Zainal, sem bæði starfa við Sanger-stofnunina í Cambridge. Serena, sem ar afar virtu vísindamaður, kom hingað til lands í síðustu viku sérstaklega til þess að taka þátt í málþingi til heiðurs Jórunni Erlu Eyfjörð í tilefni af sjötugsafmæli hennar en þær Jórunn og Serena hafa átt afar gott samstarf.
Jórunn á að baki áratugarannsóknir á brjóstakrabbameini og hefur átt í afar öflugu alþjóðlegu samstarfi. Eftir hana liggur fjöldi vísindagreina í mörgum af virtustu vísindaritum heims. Hún hefur auk þess leiðbeint fjölmörgum meistara- og doktorsnemum við Háskóla Íslands, tekið virkan þátt í stjórnunarstörfum og setið í fagráðum sænsku og finnsku Vísindaakademíanna. Árið 2006 hlaut hún viðurkenningu Ásu Wright frá Vísindafélagi Íslendinga og árið 2012 hlaut hún viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til vísinda.
Á málþinginu til heiðurs Jórunni var flutti Alan Ashworth, stjórnandi Helen Diller Family Comprehensive Cancer Center við Univeristy of California í San Franscisco, öndvegiserindi ásamt Serenu Nik-Zainal. Alan var í rannsóknarhópi sem uppgötvaði BRCA2-genið árið 1995 og hefur í allangan tíma unnið að þróun lyfjameðferða gegn krabbameini sem rekja má til stökkbreytinga á þessu geni.
Auk Serenu og Alans fluttu fjölmargir samstarfsmenn og nemendur Jórunnar erindi á málþinginu.