Risastyrkur til rannsókna á mergæxli
Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, hefur hlotið 180 milljóna króna styrk (1,5 milljónir evra) frá Evrópska rannsóknarráðinu vegna rannsóknarverkefnisins Blóðskimun til bjargar – þjóðarátaki gegn mergæxlum.
Þessi styrkur kemur til viðbótar öðrum gríðarstórum styrk sem Sigurður Yngvi hlaut fyrr á þessu ári til sömu rannsóknar og því hefur hann samtals hlotið 480 milljónir króna í styrki frá alþjóðlegum rannsóknarsjóðum á þessu ári. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir styrkinn mikla viðurkenningu fyrir Sigurð Yngva og það vísindastarf sem unnið er við Háskóla Íslands.
Mikilvægt fyrir rannsóknina
Sigurður Yngvi segir að styrkurinn sé mikil viðurkenning fyrir sig og rannsóknarhópinn sem hann leiðir og gæðastimpill fyrir rannsóknina í heild. Hann segir að styrkurinn muni skipta miklu máli fyrir rannsóknina og gefa tækifæri til þess að styrkja rannsóknarhópinn enn frekar.
„Þessi styrkur er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur sem stöndum að Blóðskimun til bjargar. Í fyrsta lagi er þetta mikil viðurkenning á þeim rannsóknum sem við höfum verið að gera hingað til en einnig er styrkur frá Evrópska rannsóknarráðinu einhver mesti gæðastimpill sem hægt er að fá fyrir vísindastörf og rannsóknarhugmyndir. Með þessum styrk getum við gert enn betur en upphaflega var stefnt að. Við getum ráðið fleiri vísindamenn að verkefninu, til dæmis munum við ráða doktorsnema, hjúkrunarfræðinga og líffræðinga,“ segir Sigurður Yngvi. „Rannsóknin muni veita gríðarlega miklar upplýsingar um forstig mergæxla og almennt um mergæxli. Aldrei hefur verið framkvæmd stærri eða ítarlegri rannsókn hjá heilli þjóð. Í raun er þetta einstakt tækifæri sem við höfum hér á landi til að láta gott af okkur leiða og munum við örugglega fá fram mikilvæga vitneskju um forstig mergæxlis sem mun hjálpa sjúklingum framtíðarinnar um allan heim.“
Viðurkenning á öflugu vísindastarfi Háskóla Íslands
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að þessi glæsilegi rannsóknarstyrkur sé fyrst og fremst mikil viðurkenning fyrir Sigurð Yngva Kristinsson prófessor og rannsóknir hans en einnig á því mikilvæga vísindastarfi sem unnið er við Háskóla Íslands.
Jón Atli segir að einungis vísindamenn í allra fremstu röð hljóti styrki evrópska rannsóknaráðsins. „Þessir styrkir eru að jafnaði til fimm ára og með þeim allra hæstu sem veittir eru til einstakra vísindamanna. Gríðarleg samkeppni er um þessa styrki, samkeppni sem öflugustu vísindamenn evrópskra háskóla taka þátt í. Sigurður Yngvi hefur byggt upp öflugt rannsóknarteymi sem náð hefur einstökum árangri á alþjóðlega vísu. Rannsóknir Sigurðar Yngva á mergæxli hafa ómetanlega samfélagslega þýðingu í baráttu okkar gegn krabbameini og afleiðingum þess.“
Rektor segir að styrkur Sigurðar Yngva sé jafnframt mikil viðurkenning fyrir Háskóla Íslands og það gróskumikla vísindastarf sem þar fari fram. „Vísindamenn við Háskóla Íslands hafa nú á nokkrum árum hlotið fjóra styrki frá Evrópska rannsóknaráðinu sem ber öflugu vísindastarfi háskólans ótvírætt vitni. Þessir styrkir eru einfaldlega til marks um það að Háskóli Íslands hefur á að skipa leiðandi vísindamönnum sem eru fremstir á sínu sviði í heiminum í dag. Á bak við slíkan árangur er þrotlaust starf fjölda fólks, starfsmanna og stúdenta, sem eru tilbúnir að leggja allt í sölurnar í öflun þekkingar til að takast á við áskoranir samtímans. Árangurinn byggist enn fremur á mikilvægu og raunar nauðsynlegu samstarfi við erlenda og innlenda aðila, svo sem Landspítalann í tilfelli Sigurðar Yngva. Við erum stolt af árangri Sigurðar Yngva og samstarfsaðila hans. Við bindum miklar vonir við framhaldið og óskum þeim góðs gengis,“ segir rektor Háskóla Íslands.
Styrkir til framúrskarandi vísindamanna
Evrópska rannsóknaráðið (ERC) er hluti af Horizon 2020 rannsóknaáætlun Evrópusambandsins. Meginmarkmið ERC er að hvetja til hágæðagrunnrannsókna í Evrópu með samkeppnisstyrkjum þar sem framúrskarandi vísindamenn með einstakar hugmyndir eru einungis styrktir. Það er því mikill gæðastimpill að fá ERC-styrk enda er umsóknarferlið strangt og mikil samkeppni. Þá þurfa verkefni sem fá ERC-styrk að hafa farið í gegnum nálarauga Evrópska vísindaráðsins og vísinda- og siðanefndir þess og hlotið náð fyrir þeim.
Um Blóðskimun til bjargar
Blóðskimun til bjargar – þjóðarátak gegn mergæxlum er umfangsmikil vísindarannsókn sem er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítala og Krabbameinsfélags Íslands ásamt Perluvinum – félagi mergæxlissjúklinga á Ísland. Verkefnið er unnið af rannsóknarhópi undir forystu Sigurðar Yngva Kristinssonar, prófessors við Læknadeild Háskóla Íslands, og er Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands verndari þess.
Verkefni Sigurðar Yngva snýst um að rannsaka hvort ávinningur sé að því að skima fyrir forstigi mergæxlis og þar með fyrir mergæxli. „Það gerum við með því að bjóða til þátttöku öllum einstaklingum sem búsettir eru á Íslandi og fæddir eru 1975 eða fyrr,“ segir Sigurður Yngvi. Sjálfsagt hafa margir landsmenn tekið eftir fjólubláu umslagi frá Blóðskimun til bjargar sem barst þeim inn um bréfalúguna nýverið. Í því er að finna lykilorð sem fólk getur notað til að skrá sig til þátttöku í þessari stóru rannsókn og veita upplýst samþykki á vefsvæðinu www.blodskimun.is. Jafnframt er hægt að nota rafræn skilríki, Íslykil eða fylla út eyðublað sem er í fjólubláa umslaginu og senda gjaldfrjálst í pósti til að skrá sig til þátttöku. „Næst þegar þátttakandi fer, einhverra hluta vegna, í blóðprufu, hvar sem er á landinu, mun rannsóknarhópurinn fá hluta af blóðsýninu til skimunar. Því þarf ekki að fara í sérstaka blóðprufu til þess að taka þátt í rannsókninni,“ segir Sigurður Yngvi.
Að sögn Sigurðar Yngva verður þeim sem greinast með forstig mergæxlis, sem áætlað er að verði um það bil fjögur prósent þátttakenda í rannsókninni, boðið í klíníska rannsókn þar sem hópnum verður skipt handahófskennt í þrjá minni hópa með mismunandi greiningarferli og eftirfylgd. „Þannig hyggjumst við svara hvort þörf er á að rannsaka einstaklinga með forstig mergæxlis og þá einnig hversu mikið. Þeim sem greinast með mergæxli verður boðið upp á viðeigandi meðferð.“
Sigurður Yngvi segir að fyrir utan vitneskjuna um mergæxli veiti rannsóknin mikilvægar upplýsingar um krabbamein almennt og krabbameinsleit eða skimanir. „Til dæmis munum við rannsaka hvaða áhrif skimanir hafa á lífsgæði einstaklinga en það hefur lítið verið rannsakað í krabbameinsfræðum almennt. Þannig verður mögulegt að nota niðurstöður okkar til að betrumbæta upplýsingaflæði til þátttakenda í krabbameinsleitum, eins og að brjósta- og blöðruhálskrabbameinum.“
Sigurður Yngvi Kristinsson er einn afkastamesti vísindamaður Háskóla Íslands. Rannsóknarteymi hans samanstendur af 16 manns, þarf af eru 8 doktorsnemar, ásamt hjúkrunarfræðingum, líffræðingum og læknum. Sigurður Yngvi hefur leitt fjölda alþjóðlegra rannsóknarverkefna í samstarfi við virtustu vísindastofnanir heims, til dæmis Karólínska háskólann, Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, Memorial Sloan Kettering og fleiri. Rannsóknarteymi hans hefur birt fjöldamargar vísindagreinar í virtustu læknisfræðitímaritum heims um mergæxli og forstig þess með sérstaka áherslu á áhættuþætti, líðan sjúklinga, horfur og erfðir.
Nánari upplýsingar um Blóðskimun til bjargar – þjóðarátak gegn mergæxlum