Samstarf við Heilsugæslu Salahverfis
Háskóli Íslands og Heilsugæsla Salahverfis hafa gert með sér samstarfssamning um klíníska kennslu í heilbrigðisvísindum. Samningurinn var undirritaður þriðjudaginn 26. september sl. af Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Hauki Valdimarssyni, framkvæmdastjóra Heilsugæslu Salahverfis, og Ingu Þórsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs HÍ.
Markmið samstarfsins er að tryggja gæði klínískrar kennslu í heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands og styrkja nýliðun fagfólks í heilsugæslunni. Starfsmenn heilsugæslunnar munu taka þátt í klínískri kennslu og þjálfun með því að leiðbeina nemendum við úrlausn viðfangsefna á heilsugæslunni í samræmi við námslýsingu.
Samningurinn kveður einnig á um sameiginlegan vilja beggja aðila til að útvega erlendum skiptinemum í heilbrigðisvísindum við Háskólann klínísk námstækifæri.
Heilsugæslan í Salahverfi var stofnuð árið 2004. Hún er rekin af einkahlutafélagi í eigu læknanna Hauks Valdimarssonar og Böðvars Arnars Sigurjónssonar samkvæmt samningi við Heilbrigðisráðuneytið. Þjónustusvæði Heilsugæslunnar í Salahverfi nær til Linda-, Sala-, Kóra- og Vatnsendahverfa í Kópavogi. Skjólstæðingar Heilsugæslunnar í Salahverfi eru rúmlega 14.000.
Samstarfssamningurinn tók gildi við undirritun og hefur gildi háskólaárið 2017-2018.