Skip to main content
12. júní 2018

Sigurður Yngvi verðlaunaður fyrir framúrskarandi rannsóknir

""

Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við Læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur á Landspítala, hlýtur sérstök alþjóðleg heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði mergæxla. Verðlaunin, sem eru afhent í fyrsta sinn, eru veitt af Alþjóða mergæxlissamtökunum sem eru samtök lækna og vísindamanna sem leita að lækningu á mergæxli sem er til þessa ólæknandi sjúkdómur. Verðlaunin eru kennd við Brian Durie sem er stjórnarformaður Alþjóða mergæxlissamtakanna og frumkvöðull í meðferð krabbameina hjá Cedar-Sinai meðferðarstöðinni í Los Angeles. 

„Það er gríðarlega mikill heiður að vera fyrsti móttakandi þessara virtu verðlauna Alþjóða mergæxlissamtakanna,“ segir Sigurður Yngvi sem tekur við verðlaununum við hátíðlega athöfn í kvöld í Stokkhólmi. 

Sigurður Yngvi fer nú fyrir stórum hópi vísindamanna og nemenda við Háskóla Íslands og Landspítala sem rannsakar forstig mergæxla og framvindu sjúkdómsins í mannslíkamanum. 

„Við sjáum nú þegar að rannsóknin mun veita gríðarlega miklar upplýsingar um forstig mergæxla og almennt um mergæxli. Aldrei hefur verið framkvæmd stærri eða ítarlegri rannsókn hjá heilli þjóð,“ segir Sigurður Yngvi en í  tengslum við rannsóknina var hleypt af stokkum þjóðarátakinu Blóðskimun til bjargar. Auk Háskólans og Landspítalans koma Krabbameinsfélagið og Perluvinir – félag mergæxlissjúklinga á Íslandi að þessu mikla átaki. 

„Þetta er fyrst og fremst viðurkenning á því starfi sem teymi mitt hefur unnið að undanfarin ár í þessu mikla átaki,“ segir Sigurður Yngvi. „Vísindi snúast um samstarf en ekki einstaklingsframlag. Ég er svo ótrúlega heppinn að vinna með frábærum vísindamönnum í rannsóknarhópi mínum sem og öðrum framúrskarandi vísindamönnum hérlendis og út um allan  heim. Þessi verðlaun er hvatning fyrir okkur að halda áfram,“ segir Sigurður Yngvi. 

Ætlunin er að rannsaka hvort ávinningur sé af því að skima fyrir forstigi mergæxlis og þar með fyrir mergæxli. „Það gerðum við með því að bjóða til þátttöku öllum einstaklingum sem búsettir eru á Íslandi og fæddir eru 1975 eða fyrr, og rúmlega 80 þúsund manns samþykktu þátttöku,“ segir Sigurður Yngvi. 

Mergæxli er ólæknandi sjúkdómur í beinmerg og einkenna sjúkdómsins verður oft ekki vart fyrr en hann hefur haft alvarleg áhrif á heilsuna. Árlega greinast um 20 til 25 manns með sjúkdóminn hér á landi og alls um 200 þúsund manns í heiminum öllum.

Fyrir utan vitneskjuna um mergæxli veitir rannsóknin mikilvægar upplýsingar um krabbamein almennt og krabbameinsleit eða skimanir. „Í raun er þetta einstakt tækifæri sem við höfum hér á landi til að láta gott af okkur leiða og við munum örugglega fá mikilvæga vitneskju um forstig mergæxlis og almennt um krabbameinsskimanir, sem mun hjálpa sjúklingum framtíðarinnar um allan heim,“ segir Sigurður Yngvi.

Sigurður Yngvi Kristinsson er einn afkastamesti vísindamaður Háskóla Íslands. Rannsóknarteymi hans samanstendur af rúmlega 20 manns, þarf af eru 8 doktorsnemar, ásamt hjúkrunarfræðingum, líffræðingum og læknum. Sigurður Yngvi hefur leitt fjölda alþjóðlegra rannsóknarverkefna í samstarfi við virtustu vísindastofnanir heims, til dæmis Karólínska háskólann, Alþjóða heilbrigðisstofnunina, Memorial Sloan Kettering og fleiri. Rannsóknarteymi hans hefur birt fjöldamargar vísindagreinar í virtustu læknisfræðitímaritum heims um mergæxli og forstig þess með sérstaka áherslu á áhættuþætti, líðan sjúklinga, horfur og erfðir.

 

Sigurður Yngvi Kristinsson