Skip to main content
1. júlí 2016

Skráning hafin á 18. ráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs

""

Opnað hefur verið fyrir móttöku ágripa og skráningu á 18. ráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands. Ráðstefnan fer fram á Háskólatorgi dagana 3. og 4. janúar 2017. Ráðstefnunni er ætlað að kynna og miðla því sem er efst á baugi í líf- og heilbrigðisvísindum innan Háskóla Íslands og utan hverju sinni. 

Ráðstefnan fór síðast fram í ársbyrjun 2015 og var fjölsóttasta ráðstefnan frá upphafi með rúmlega 800 þátttakendum. Flutt voru 282 erindi og 160 veggspjöld voru til sýnis. 

Á dagskrá ráðstefnunnar í janúar nk. verða málstofur, veggspjaldasýningar og spennandi gestafyrirlestrar. Skipulag ráðstefnunnar verður með svipuðu sniði og áður. Sérstök áhersla verður lögð á að málstofur á ráðstefnunni verði eins þverfræðilegar og hægt er til þess að tengja saman vísindafólk úr ólíkum greinum. Ekkert skráningargjald er á ráðstefnuna en skráning er samt sem áður skilyrði fyrir þátttöku.Samþykkt ágrip verða birt í fylgiriti Læknablaðsins sem dreift verður á ráðstefnunni og á heimasíðu Háskóla Íslands. 

Heilbrigðisvísindasvið býður öllum þeim sem stunda rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands eða tengdar stofnanir og fyrirtæki til þátttöku í ráðstefnunni.

Undirbúningur og framkvæmd 18. ráðstefnunnar er í höndum skrifstofu Heilbrigðisvísindasviðs og sérstakrar undirbúningsnefndar. Í undirbúningsnefndinni sitja Alfons Ramel, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, Fanney Þórsdóttir, dósent við Sálfræðideild, Karl Andersen, prófessor við Læknadeild og formaður nefndarinnar, Margrét Þorsteinsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild, Páll Biering, dósent við Hjúkrunarfræðideild og Svend Richter, dósent við Tannlæknadeild. 

Skráning er, eins og fyrr segir, hafin og búið er að opna fyrir móttöku ágripa. Skilafrestur ágripa er til 1. október 2016.

Smellið hér fyrir nánari upplýsingar um skil ágripa.

Smellið hér til þess að skrá ykkur á ráðstefnuna

""