Stefna og húsnæðismál efst á baugi á haustþingi HVS
Haustþing Heilbrigðisvísindasviðs fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu fimmtudaginn 8. nóvember 2018. Dagskrá þingsins var tileinkuð stefnu Háskólans HÍ21 og húsnæðismálum Heilbrigðisvísindasviðs.
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, og Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, fluttu erindi á þinginu og fóru yfir stöðuna á stefnu Háskólans HÍ21. Jón Atli fjallaði um hlutverk, tilgang og helstu áhersluatriði stefnunnar. Hann fór einnig yfir stöðuna á innleiðingunni. Steinunn fór yfir helstu verkefnin sem komin eru af stað og hvað hefur áunnist. Hún greindi m.a. sérstaklega frá árangri sem hefur náðst í að efla gæði náms og kennslu, m.a. með tvöföldun kennslumála- og aðstoðarmannasjóða, innleiðingu rannsóknarinnviðaáætlunar og aðgerða sem styðja við mannauð. Steinunn fór einnig yfir þær aðgerðir sem eru í forgangi fyrir næsta ár.
Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, fjallaði um innleiðingu stefnunnar á sviðinu. Fjölmörgum aðgerðum hefur verið ýtt úr vör síðan stefna Heilbrigðisvísindasviðs var samþykkt haustið 2016. Í samræmi við HÍ21 hefur áhersla verið á gæði náms og kennslu m.a. með hádegissamráðsfundum um kennslumál og leiðbeiningu doktorsnema og ráðningu kennsluþróunarstjóra. Þá eru nýjar þverfræðilegar MS námsleiðir einnig í undirbúningi. Rannsóknainnviðir og þjónusta hafa einnig verið efld og í þeim tilgangi verður ný Heilbrigðisvísindastofnun sett á laggirnar á næstunni.
Ólafur Pétur Pálsson, prófessor og stjórnandi þarfagreiningar fyrir nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs, fór yfir stöðuna á þeirri vinnu. Þarfagreiningunni er nú lokið og unnið er að greiningu á gögnunum og útreikningum á rýmisþörf. Áætlað er að byggingin farið í útboð vorið 2019 og að framkvæmdum ljúki á árinu 2024.
Fundarstjóri þingsins var Daníel Þór Ólason, prófessor og forseti Sálfræðideildar.
Skoða glærukynningar frá þinginu (í Uglu).