Styrkt til rannsókna tengdum liðskiptum og krossbandameiðslum
Þrír styrkir hafa verið veittir til rannsókna á sviði bæklunarlækninga með áherslu á stoðkerfissjúkdóma úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands. Styrkhafar eru Halldór Jónsson jr., prófessor og sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, Kristín Briem, prófessor við námsbraut í sjúkraþjálfun, og María Sigurðardóttir, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.
Rannsókn Halldórs Jónssonar jr. prófessors felst í að koma á fót klínísku matskerfi fyrir sjúklinga sem eru að fara í heildarmjaðmaliðaskipti. Í dag standa heilbrigðisstarfsmenn frammi fyrir því að fáar og óáreiðanlegar verklagsreglur eru til við mat á besta kosti við val gerviliðar í mjöðm, með beinsteypu eða án beinsteypu. Einnig er lítil þekking til á hreyfingu liða í ganglimum þessara einstaklinga. Markmið rannsóknarinnar er að þróa verklagsreglur til að styðja við ákvörðun um tegund mjaðmagerviliðar. Í rannsókninni hefur þegar verið unnin sneiðmyndarannsókn af mjaðmaliðum hjá hópi fólks fyrir og eftir aðgerð og ári eftir aðgerð. Jafnframt hefur farið fram göngugreining og rafvirknimæling á vöðvum sem liggja í kringum mjaðmasvæðið. Í þriðja lagi hafa þátttakendur í rannsókninni svarað sértækum spurningum um líðan og færni sem tengist mjaðmavandamálum. Rannsóknarniðurstöður eru settar í gagnagrunn sem ætlunin er að geti leiðbeint um rétt val á gervilið fyrir sérhvern einstakling. Frumniðurstöður hafa vakið mikla athygli. Annars vegar hafa þær hlotið verðlaun á tveimur erlendum ráðstefnum fyrir áhugaverðustu framsögnina. Hins vegar voru niðurstöðurnar tilnefndar í ár til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Með þeim styrk sem nú er veittur er ætlunin að efla gagnagrunninn enn frekar með því að endurtaka sneiðmyndarannsókn á þátttakendum fimm árum eftir aðgerð.
Að rannsókninni standa Halldór Jónsson jr, yfirlæknir á bæklunarskurðdeild Landspítala og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, Paolo Gargiulo, doktor í heilbrigðisverkfræði og forseti heilbrigðisverkfræðideildar Háskólans í Reykjavík, og Magnús Gíslason, lektor í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Rannsóknin er unnin í samvinnu við Tækniháskólann í Vín í Austurríki og Háskólann í Napólí á Ítalíu.
Rannsókn Kristínar Briem, prófessors við námsbraut í sjúkraþjálfun, er hluti af stærri rannsókn sem snýr að nýgengi og orsakaþáttum ákveðinna alvarlegra hnémeiðsla og skurðaðgerðum í tengslum við þau meiðsli. Markmið rannsóknarinnar er að meta áhrif meiðslanna, skurðaðgerða og líkamsbyggingar á þróun slitgigtar í burðarliðum (hnjám og mjöðmum). Kallað verður eftir þátttöku 300 einstaklinga sem hafa slitið fremra krossband í hné á skilgreindu árabili. Myndgreining verður notuð til þess að meta magn slitbreytinga og líkamsbyggingu en spurningalistar til að meta einkenni og athafnagetu þátttakenda. Áhrif annarra áverka við upphafleg meiðsli (t.d. liðþófa- og brjóskáverka) verða metin ásamt áhrifum læknismeðferðar (skurðaðgerð eða ekki) og líkamsbyggingar. Niðurstöðurnar munu auka skilning á því hvaða áhrifaþættir skipta máli um framgang og þróun slitgigtar á lífsleiðinni og hvernig það endurspeglast í lífsgæðum.
Rannsóknin er unnin í samstarfi við Arnþór Guðjónsson og Einfríði Árnadóttur, en þau eru sérfræðingar í myndgreiningu, og Micah Nicholls, doktorsnema við Læknadeild Háskóla Íslands.
Rannsókn Maríu Sigurðardóttur, sérfræðings í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala, miðar að því að kanna áhrif langtímaundirbúnings og uppvinnslu sjúklinga, sem bíða eftir liðskiptum á hné eða mjöðm, á aðgerðarferilinn og tíðni fylgikvilla. Rannsóknin er samvinnuverkefni Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Fyrirhugað er að nýta biðtíma sjúklinga eftir aðgerð til að greina og meðhöndla þekkta áhættuþætti sem geta aukið tíðni fylgikvilla, svo sem sykursýki, vannæringu, blóðskort, offitu og reykingar. Það er von rannsakenda að með þessu megi draga úr fylgikvillum eins og liðsýkingum, liðlosun og sárasýkingum. Jafnframt að sjúklingarnir komist fyrr á fætur og heim til sín á ný eftir aðgerð en þeim verður fylgt eftir í tvö ár eftir aðgerðina með tilliti til hugsanlegra fylgikvilla. Auk þess vona rannsakendur að rannsóknin styrki tengsl heilsugæslu og sjúkrahúss og sjúklingar fái þannig meiri samfellu í öllum undirbúningi og eftirliti í tengslum við aðgerðir.
Margir hafa komið að undirbúningi þessarar rannsóknar en aðalrannsakandi er María Sigurðardóttir svæfingalæknir og leiðbeinandi Sigurbergur Kárason, yfirlæknir og dósent.
Um sjóðinn
Tilgangur Sjóðs Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands er að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga. Sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmarlið, svo sem ættgengi, tíðni og afleiðingum. Sjóðinn stofnaði Sigríður Lárusdóttir (f. 5. maí 1918) árið 2005 til minningar um þá sem hafa glímt við meðfædda sjúkdóma í mjöðm en Sigríður átti við þann sjúkdóm að stríða frá fæðingu.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.