Skip to main content
18. desember 2015

Styrktar til doktorsrannsókna á sviði ljósmóðurfræða

Tveir styrkir hafa verið veittir til rannsókna á sviði ljósmóðurfræða úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda. Emma Marie Swift hlýtur styrk fyrir rannsókn sína sem miðar að því að efla eðlilegar fæðingar á Íslandi og Valgerður Lísa Sigurðardóttir hlýtur styrk til doktorsrannsóknar þar sem ætlunin er að rannsaka neikvæða fæðingarreynslu kvenna á Íslandi. Heildarupphæð styrkja nemur 680 þúsund krónum.

Meginmarkmið doktorsrannsóknar Emmu Marie Swift, sem ber heitið „Að efla eðlilegar fæðingar á Íslandi – rannsókn um fæðingarótta og viðhorf til notkunar tækni í fæðingum“, er að aðlaga og þróa íhlutun í mæðravernd sem byggist m.a. á hópumönnun með aukinni fræðslu og stuðningi við verðandi foreldra. Rannsóknin miðar að því að athuga hvort slík nálgun geti haft jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu kvenna og eflt trú konunnar á eigin getu til að fæða án inngripa. Íhlutunin verður prófuð á hópi barnshafandi kvenna og viðhorf þeirra til inngripa, fæðingarótta og meðgönguverndar borin saman við hóp barnshafandi kvenna í hefðbundinni meðgönguvernd. Verkefnið er nýsköpun í meðgönguvernd hér á landi og miðar að því að efla eðlilegar fæðingar á Íslandi, auka fræðslu og sjálfsöryggi kvenna sem og stuðning við verðandi foreldra. Að auki hyggst Emma skoða samband fæðingarótta og viðhorfa til notkunar tækni í fæðingum meðal ungra íslenskra kvenna og skrá notkun inngripa í fæðingum á Íslandi undanfarin 25 ár.

Emma Marie Swift lærði ljósmóðurfræði í Bandaríkjunum og starfaði sem ljósmóðir í Madison í Wisconsin-ríki á árunum 2010-2013. Vorið 2015 lauk hún meistaranámi í ljósmóðurfræði frá Hannover Medical School í Þýskalandi og hóf doktorsnám í ljósmóðurfræði með áherslu á lýðheilsuvísindi við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands undir leiðsögn Helgu Gottfreðsdóttur, dósents við Hjúkrunarfræðideild, og Helgu Zoega, dósents við Læknadeild. Aðrir í doktorsnefnd eru Melissa Avery, prófessor við Minnesota-háskóla í Minneapolis, Kathrin Stoll, nýdoktor við British Columbia háskóla í Vancouver, og Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Megintilgangur doktorsrannsóknar Valgerðar Lísu Sigurðardóttur, sem ber heitið „Neikvæð fæðingarreynsla á Íslandi: Algengi, áhættuþættir og þróun ljósmóðurmeðferðar“, er að skoða hversu algengt það er að íslenskar konur upplifi fæðingu á neikvæðan hátt og þróa íhlutun fyrir þann hóp sem hefur upplifað slíkt. Fyrri rannsóknaniðurstöður benda til þess að neikvæð upplifun á fæðingu geti haft margvíslegar neikvæðar afleiðingar fyrir konu og barn. Því er fyrsti hluti verkefnisins fólginn í að skoða tíðni neikvæðrar fæðingarupplifunar hér á landi ásamt því að kanna hvaða þættir hafa áhrif á slíka upplifun hjá konum. Í því sambandi verða m.a. skoðuð áhrif félagslegs stuðnings, mat kvenna á eigin heilsu og hvort tímalengd frá fæðingu hefur áhrif á upplifun konunnar. Þessi hluti rannsóknarinnar byggist á gögnum úr rannsókninni Barneign og heilsa og fór gagnasöfnun fram víða um land. Í öðrum hluta verkefnisins verður kannað hvernig þjónustu konur, sem eiga neikvæða fæðingarreynslu að baki, kjósa. Þar verður byggt á gögnum úr rannsókn á viðtalsþjónustunni Ljáðu mér eyra á Landspítala. Að lokum er stefnt að því að þróa íhlutun sem ljósmæður myndu veita og byggist hún á niðurstöðum úr fyrri hluta rannsóknarinnar. Rannsókninni er ætlað að bæta við þekkingu í ljósmóðurfræði, efla ljósmóðurmeðferð og stuðla að velferð móður og barns.

Valgerður Lísa er sérfræðiljósmóðir og klínískur lektor á kvennadeild Landspítala. Jafnframt hefur hún um alllangt skeið verið stundakennari við námsbraut í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Sérsvið Valgerðar Lísu er andleg líðan kvenna í barneignarferlinu og veitir hún ráðgjöf og umönnun til kvenna  með geðrænan vanda, vímuefnavanda eða önnur vandamál sem tengjast andlegri líðan í barneignarferlinu. Hún hefur frá árinu 2008 starfað með viðtalsþjónustunni Ljáðu mér eyra á Landspítala, en þangað geta konur leitað ef þær hafa þörf fyrir að ræða fæðingarreynslu sína. Leiðbeinandi er Helga Gottfreðsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild, og meðleiðbeinandi Herdís Sveinsdóttir, prófessor við sömu deild. Aðrir í doktorsnefndinni eru Berglind Guðmundsdóttir, dósent við Læknadeild, og Jenny Gamble, prófessor við Griffith University í Ástralíu. Valgerður Lísa hlaut styrk úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda árið 2014 og er styrkurinn í ár veittur til að vinna að öðrum hluta verkefnisins þar sem undirbúningur við þróun ljósmóðurmeðferðar hefst.

Þetta er í fjórða sinn sem styrkur er veittur úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda en markmið hans er að  styrkja hjúkrunarfræðinga og ljósmæður til framhaldsnáms. Sjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands 22. desember 2008 samkvæmt fyrirmælum í erfðaskrá Soffíu Þuríðar Magnúsdóttur til minningar um foreldra hennar, Björgu Magnúsdóttur ljósmóður og Magnús Jónasson bónda sem bjuggu allan sinn búskap í Túngarði á Fellsströnd. Björg var þar umdæmisljósmóðir árabilið 1910-1951.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. Frekari upplýsingar er að finna á sjóðavef háskólans.
 

Styrkhafarnir Emma Marie Swift og Valgerður Lísa Sigurðardóttir við úthlutun styrkjanna.
Frá vinstri: Herdís Sveinsdóttir prófessor og stjórnarmaður, Emma Marie Swift, ljósmóðir og styrkhafi, Valgerður Lísa Sigurðardóttir, sérfræðiljósmóðir og styrkhafi, Ólöf Ásta Ólafsdóttir, lektor og formaður stjórnar sjóðsins, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Styrkhafarnir Emma Marie Swift og Valgerður Lísa Sigurðardóttir við úthlutun styrkjanna.
Frá vinstri: Herdís Sveinsdóttir prófessor og stjórnarmaður, Emma Marie Swift, ljósmóðir og styrkhafi, Valgerður Lísa Sigurðardóttir, sérfræðiljósmóðir og styrkhafi, Ólöf Ásta Ólafsdóttir, lektor og formaður stjórnar sjóðsins, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.