Skip to main content
5. maí 2018

Svefn og næring grunnstoðir heilsunnar

""

Svefn og næring eru tvær af helstu grunnstoðum heilsu ásamt hreyfingu og andlegri vellíðan, segja þær Erna Sif Arnardóttir, nýdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands, og Ingibjörg Gunnarsdóttur, prófessor í næringarfræði við skólann, en í hádeginu miðvikudaginn 9. maí munu þær halda erindi í fræðslufundarröðinni „Háskólinn og samfélagið.“  Erindi þeirra verða klukkan 12 í Veröld - húsi Vigdísar og eru þau öllum opin og aðgangur ókeypis. 

Bein útsending frá erindunum:

Í fyrstu fundaröðinni er velferð barna og ungmenna í brennidepli og er röðin kynnt undir heitinu „Best fyrir börnin.“  Þar er fjallað um ótal þætti sem snerta velferð barna og ungmenna, s.s. andlega líðan, hreyfingu, læsi og samskipti en í þetta skiptið eru svefn og mataræði í háskerpu – þættir sem skipta okkur öll miklu máli.

Í erindinu á miðvikudag ætlar Ingibjörg að fjalla um mikilvægi næringar, allt frá fósturskeiði til unglingsára, með áherslu á næringarefni sem tengjast þroska barna. Erna Sif ætlar hins vegar að fjalla um mikilvægi góðs svefns fyrir andlega og líkamlega heilsu barna. Hún ætlar að tala um samspil svefns og líkamsklukku sem hefur mikil áhrif á syfju og „sofnunartíma“. 

„Farið verður yfir ýmis ráð til að hjálpa börnum og unglingum sem eiga erfitt með að sofna á kvöldin og að vakna snemma á morgnana. Unglingar eiga oft sérstaklega erfitt með þetta vegna náttúrulegrar seinkunar líkamsklukkunnar á þeim árum ævinnar,“ segir Erna Sif.

Ingibjörg segir að hollt mataræði og hæfileg neysla næringarefna sé undirstaða vaxtar og þroska barna. „Lélegt næringarástand, of- eða vannæring, getur áhrif á getu barna til að læra og áhrifa gætir því mjög víða í samfélaginu. Aukið framboð á drykkjum sem innihalda ýmis örvandi efni er áhyggjuefni.“ 

Erna Sif segir að svefn og matur tengist meir en marga grunar enda hafi svefninn áhrif á fæðuval. „Góður svefn skiptir miklu máli fyrir vöxt og þroska barna og svefn hefur m.a. áhrif á hegðun, námsgetu og íþróttaárangur. Of stuttur svefn til lengri tíma og svefnvandamál á borð við kæfisvefn og miklar hrotur barna geta haft skaðleg áhrif á heilsu þeirra.“

Mikilvægt að allt samfélagið taki þátt
Ingibjörg segir það mikilvægt að samfélagið allt taki þátt í að bæta matarumhverfi barna okkar.  „Foreldrar fylgja almennt vel leiðbeiningum sem gefnar eru út um næringu ungbarna en þegar börnin eldast þá þurfa foreldrar stuðning frá skólakerfinu, íþrótta- og tómstundafélögum og í raun samfélaginu öllu til að viðhalda hollu mataræði barna sinna. Samfélagið þarf að verða sammála um að takmarka aðgengi barna að mat og drykk sem gæti haft skaðleg áhrif á heilsu þeirra en auka um leið aðgengi að hollum mat. Eins er mikilvægt að börnin sjálf fái meiri fræðslu um uppruna matvæla og næringarefna í fæðunni í gegnum allt skólakerfið. Þetta er nauðsynlegt til að þau séu fær um að taka upplýsta ákvörðun um fæðuval í samráði við foreldra sína,“ segir Ingibjörg.  

Margt hægt að gera til að bæta svefn
Erna Sif segir að við sem samfélag getum gert margt til að bæta svefn barna og unglinga. Að hennar sögn er mjög mikilvægt að leiðrétta skakka staðarklukku á Íslandi. „Þegar við vöknum klukkan 7 á morgnana er sólarklukkan í raun 5.30 að morgni. Þetta veldur því að mörg ungmenni eiga erfitt með að sofna nógu snemma á kvöldin til að fá nægan nætursvefn og finnst erfitt að fara á fætur á morgnana. Einnig er hægt að seinka skólabyrjun til 9 eða 10 á morgnanna hjá unglingum í takt við náttúrulega seinkaða líkamsklukku þeirra. Huga þarf að notkun snjalltækja fyrir svefntíma, koffíndrykkju og æfingatíma í íþróttum seint á kvöldin sem eru allt þættir sem valda því að börn og unglingar eiga erfitt með að sofna á kvöldin.“ 

Erna Sif segir að æfingar eldsnemma á morgnanna geti einnig valdið verulegri skerðingu á svefntíma barna og mætti færa á annan tíma dags. „Loks má huga að notkun dagsbirtulampa yfir mesta vetrartímann til að hjálpa börnum og unglingum að stilla af líkamsklukkuna þegar lítillar náttúrulegrar birtu nýtur við.“ 

Eins og áður segir hefst erindi þeirra Ernu Sifjar og Ingibjargar klukkan 12 þann 9. maí í Veröld – húsi Vigdísar og verður streymt frá fundinum. Markmiðið með fundinum og öðrum í röðinni er að dýpka sýn bæði almennings og fagfólks á vandamál og lausnir á mikilvægum samfélagslegum þáttum og styðja fjölskyldur og samfélag í því að tryggja velferð barna og ungmenna.

Nánar um fundaröðina

Erna Sif Arnardóttir og Ingibjörg Gunnarsdóttir