Tæplega 300 skráðir í inntökupróf í Læknadeild
297 nemendur hafa skráð sig í inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun í Læknadeild Háskóla Íslands fyrir komandi haustmisseri. Prófið fer fram 9. og 10. júní næstkomandi.
Mun þetta vera svipaður fjöldi og þreytt hefur inntökuprófið undanfarin tvö ár. Í heild munu 246 þreyta inntökupróf í læknisfræði fyrir komandi haust en 51 í sjúkraþjálfun. Sama próf er lagt fyrir alla þátttakendur og þeir sem standa sig best geta skráð sig í læknisfræði eða sjúkraþjálfun, allt eftir skráningu viðkomandi í prófið. Teknir eru inn 35 nemendur í sjúkraþjálfun og 48 í læknisfræði en fjöldinn miðast við afkastagetu sjúkrahúsanna við verklega þjálfun stúdenta.
Prófað verður í húsnæði Menntaskólans við Hamrahlíð. Skráningu í prófið lauk 20. maí síðastliðinn og höfðu skráðir þátttakendur frest til 30. maí til að greiða próftökugjald en það nemur 20 þúsund krónum.
Inntökuprófið tekur tvo daga og samanstendur af fjórum tveggja tíma próflotum og Aðgangsprófi fyrir háskólastig (A-prófi) sem tekur 3,5 klst. A-prófið gildir 30% af inntökuprófinu.
Þess má geta að þeir sem fara í prófið en komast ekki inn í Læknadeild geta skráð sig í aðrar deildir Háskóla Íslands fram til 20. júlí.