Þjóðarátakinu „Blóðskimun til bjargar“ lýkur 1. desember
• Hartnær 80 þúsund hafa skráð sig til þátttöku í þjóðarátaki gegn mergæxlum.
• Þjóðarátakinu lýkur 1. desember og er hægt að skrá sig til þátttöku fram að því.
• Meira en annar hver einstaklingur hefur þegið boð um þátttöku.
• Þau sem greinst hafa með mergæxli hafa fengið viðeigandi meðferð fyrr en ella.
Söfnun þátttakenda í Blóðskimun til bjargar, einni viðamestu vísindarannsókn sinnar tegundar frá upphafi, lýkur nú á föstudag, þann 1. desember. Nú þegar hafa hartnær 80 þúsund einstaklingar af landinu öllu þegið boð um að taka þátt í þessari mikilvægu rannsókn en 148 þúsund einstaklingum, sem fæddir eru árið 1975 eða fyrr, var boðið að taka þátt. Því hefur meira en annar hver þeirra skráð sig til þátttöku. Hægt verður að skrá sig áfram til þátttöku á www.blodskimun.is fram á miðnætti á föstudag.
Blóðskimun til bjargar – þjóðarátak gegn mergæxlum vill koma á framfæri þökkum til landsmanna fyrir einstakar viðtökur.
Þátttakendur hafa fengið meðferð fyrr en ella
„Það er einstakt hversu vel landsmenn hafa brugðist við og tekið þátt í þessari mikilvægu vísindarannsókn. Ég vil koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa lagt okkur lið,“ segir Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, sem leiðir rannsóknina.
Að sögn Sigurðar Yngva hafa fram til þessa fimm þátttakendur í rannsókninni greinst með mergæxli, rúmlega 20 með einkennalaust mergæxli og nokkur hundruð með forstig mergæxlis.
„Þeir einstaklingar sem greinst hafa með mergæxli vegna þátttöku sinnar í rannsókninni hafa fengið viðeigandi meðferð mun fyrr enn ella hefði verið mögulegt. Það eykur líkur á að hægt sé að draga úr áhrifum sjúkdómsins og bæta lífsgæði þeirra til frambúðar,“ segir Sigurður Yngvi. „Horfur þeirra sem greinast með mergæxli hafa batnað umtalsvert á undanförnum árum vegna tilkommu nýrra lyfja. Aðalmarkmið rannsóknarinnar er að kanna ávinning skimunar fyrir forstigi mergæxlis og þannig stuðla að betri árangri við að takast á við mergæxli .“
Sigurður Yngvi segir að á næstu tveimur til þremur árum taki við söfnun sýna frá þátttakendum og rannsókn á þeim.
Hægt að skrá sig til 1. desember
Þjóðarátaki gegn mergæxlum lýkur á föstudaginn, þann 1. desember. Þangað til verður hægt að skrá sig til þátttöku með því að veita upplýst samþykki. Það er hægt að gera á www.blodskimun.is með því að nota Íslykil, rafræn skilríki eða heimsent lykilorð. Einnig er hægt að prenta út samþykktareyðublað til að fylla út og senda með pósti. Næst þegar þátttakandi fer, einhverra hluta vegna, í blóðprufu, hvar sem er á landinu, mun Blóðskimun til bjargar fá hluta af blóðsýninu til rannsóknar. Því þarf ekki að fara í sérstaka blóðprufu til þess að taka þátt.
Um Blóðskimun til bjargar
Blóðskimun til bjargar er umfangsmikil vísindarannsókn sem miðar að því að rannsaka áhrif skimunar fyrir forstigi mergæxlis og komast að orsökum sjúkdómsins til þess að bæta líf þeirra sem greinast með mergæxli og leita um leið lækninga við honum.
Rannsóknin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítala og Krabbameinsfélags Íslands. Rannsóknarhópur undir forystu Sigurðar Yngva Kristinssonar, prófessors í blóðsjúkdómum við Háskóla Íslands, framkvæmir rannsóknina. Rannsóknin er fjármögnuð með styrkjum frá alþjóðlegum og innlendum rannsóknarsjóðum, Alþjóðasamtökum um mergæxlisrannsóknir (International Myeloma Foundation), Evrópska rannsóknarráðinu (ERC) og Rannsóknasjóði Rannís.
Að rannsókninni starfa 18 manns í fullu starfi, þar á meðal eru læknar, hjúkrunarfræðingar, líffræðingar, lífeindafræðingar, sálfræðingar og tölfræðingar. Að auki kemur fjöldi annarra samstarfsvísindamanna hérlendis og erlendis að rannsókninni.