Þorsteinn hlaut verðlaun Ásusjóðs
Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hlýtur heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright árið 2015. Tilkynnt var um þetta við hátíðlega athöfn þriðjudaginn 29. desember að viðstöddum forseta Íslands, stjórn Vísindafélags Íslendinga, rektorum Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, þjóðminjaverði og fulltrúum fræðasamfélagsins, hollvina sjóðsins auk Ása og Ásynja sem áður hafa hlotið viðurkenningu sjóðsins.
Þorsteinn Loftsson er einn fremsti fræðimaður Íslands á sviði lyfjarannsókna og er heimsþekktur fyrir framlag sitt til lyfjafræðinnar. Með rannsóknum sínum hefur hann reynt að gera notkun lyfja markvissari þannig að hægt væri að ná jafngóðum eða betri læknisfræðilegum árangri með minni og hnitmiðaðri lyfjaskammti en áður. Hann er afkastamikill fræðimaður og hefur birt yfir 300 ritrýndar greinar og nokkrar bækur. Hann hefur einnig hlotið margar viðurkenningar fyrir störf sín, bæði á innlendum og erlendum vettvangi.
Þorsteinn hefur einnig verið iðinn við að hagnýta rannsóknaniðurstöður sínar. Hann hefur fengið fjölmörg einkaleyfi fyrir uppfinningar sínum í lyfjafræði. Hann er stofnandi og stjórnarmaður sprotafyrirtækjanna Cyclops ehf. (árin 1993-2000) og Oculis sem hann hefur stýrt frá 2003. Þá stofnaði hann og hefur starfað sem stjórnarformaður hjá Lipid Pharaceuticals ehf. frá 2009.
Þorsteinn hefur verið prófessor í eðlislyfjafræði við Háskóla Íslands frá árinu 1986 og jafnframt sinnt gistiprófessorsstöðu við Department of Medicinal Chemistry College of Pharmacy við Flórídaháskóla.
Helstu rannsóknasvið Þorsteins eru notkun sýklódextrína í lyfjaform, leysanleiki lyfja, stöðugleiki lyfja og flutningur lyfja í gegnum lífrænar himnur. Einnig hefur hann rannsakað forlyf, mjúk lyf og svokölluð kalixaren. Þetta eru jafnt lyfjaform við hjartsláttatruflunum, flutningsform sem auðveldar flutning lyfs um húð, augndropar, gel og úðar sem innihalda öragnir sem leysast upp í táravökva, húðun sem hindrar niðurbrot fitusýra og kemur í veg fyrir oxun þeirra og notkun fitusýra fyrir slímhúð sem bætir hægðatregðu, gyllinæð, bakteríu og vírussýkingum og bólgum í endaþarmi.
Þorsteini hefur áður hlotið ýmsar innlendar og erlendar viðurkenningar hjá fræðasamfélaginu fyrir störf sín, þar á meðal:
1992 Vísindaverðlaun læknadeildar Háskóla Íslands.
1998 The Nagai Foundation Tokyo, International Scholarship.
1998 Kjörinn Félagi (Fellowship status) í American Association of Pharmaceutical Scientists.
2013 Viðurkenning HÍ fyrir lofsvert framlag til vísinda.
2014 Thomson Reuters Highly Cited Researcher fyrir hinar mörgu tilvitnanir í rit hans.
2014 Viðurkenningu Thomson Reuters sem einn af áhrifamestu vísindamönnum heimsins.
2015 Thomson Reuters Highly Cited Researcher fyrir hinar mörgu tilvitnanir í rit hans.
Þorsteinn er kvæntur Hönnu Lilju Guðleifsdóttur og eiga þau tvo syni.
Upplýsingar um Þorstein á netinu
Þorsteinn á lista Thomson Reuters yfir áhrifamestu vísindamenn heims bæði árin 2014 og 2015.
Um Verðlaunasjóð Ásu Guðmundsdóttur Wright
Stofnandi sjóðsins var frú Ása Guðmundsdóttir Wright. Fjörutíu og sjö ár eru liðin frá því að hún gaf Vísindafélagi Íslendinga peningagjöf á hálfrar aldar afmæli félagsins hinn 1. desember 1968. Verðlaunasjóður Ásu Guðmundsdóttur Wright er skipaður þremur stjórnarmönnum. Eru nú í stjórn sjóðsins þeir Sveinbjörn Björnsson, prófesssor og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, Þráinn Eggertsson, prófessor emeritus, og Sigrún Ása Sturludóttir, M.Sc. sem jafnframt er stjórnarformaður. Þeir sem hlotið hafa verðlaun úr sjóðnum hafa verið kallaðir Æsir eða Ásynjur.
Ása Guðmundsdóttir, stofnandi sjóðsins, lifði viðburðarríkri ævi. Ása fæddist að Laugardælum í Árnessýslu hinn 12. apríl 1892. Hún var dóttir Guðmundar læknis Guðmundssonar og Arndísar Jónsdóttur. Ung hélt Ása utan og lagði stund á hjúkrunar- og ljósmóðurnám í Lundúnum. Dvaldi hún hjá Lord Buckmaster sem var stallari konungs og fékk hún því að ganga fyrir konung. Á siglingu heim úr námi kynntist hún enskum lögmanni, dr. Henry Newcomb Wright, sem hún giftist stuttu síðar. Bjuggu þau fyrst í Suðvestur-Englandi en settust að lokum að á Trínidad í Vestur-Indíum sem þá var bresk nýlenda. Þar ráku þau hjón plantekru í fögru landsvæði í Arima-dal. Ása og Newcomb voru barnlaus og ráðstafaði Ása jarðeign sinni til félags fuglaskoðara og stofnaði fuglafriðland. Búgarðurinn, Spring Hill, heitir nú Asa Wright Nature Centre.
Andvirði bújarðarinnar í dollurum varði Ása meðal annars til stofnunar sjóðs í tengslum við Vísindafélag Íslendinga. Breytingar á gengi og verðbólga hafa hins vegar rýrt sjóðinn og undanfarin ár hafa fyrirtækin Alcoa Fjarðaál og HB Grandi styrkt sjóðinn með gjafafé. Þeir gera sjóðnum kleift að veita árlega ein veglegustu verðlaun sem veitt eru til vísindamanna hér á landi og þakkar sjóðstjórnin þeim fyrirtækjum kærlega fyrir stuðninginn.
Verðlaunin eru heiðursskjal og silfurpeningur með lágmynd Ásu en merki Vísindafélags Íslendinga, nafn þiggjanda og ártal er grafið í jaðarinn. Í ár fylgir þriggja milljóna króna peningagjöf frá hollvinum sjóðsins sem eru HB Grandi og Alcoa Fjarðarál.