Þróar hugbúnað til að bæta lyfjanotkun sjúklinga
Anna Bryndís Blöndal, lektor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hlaut á dögunum hæsta styrk sem úthlutað var á vegum stjórnvalda til atvinnumála kvenna. Styrkurinn mun nýtast við þróun hugbúnaðar sem á að aðstoða lyfjafræðinga og aðra fagaðila við að finna bestu leiðina til að ná markmiði lyfjameðferðar hjá sjúklingum.
Vinnumálastofnun og velferðarráðuneytið halda utan um úthlutun styrkja til atvinnumála kvenna en þeir hafa verið veittir frá árinu 1991. Styrkirnir eru ætlaðir konum í frumkvöðlastarfsemi og fyrirtækjum í þeirra eigu. Alls bárust 135 umsóknir um styrki til atvinnumála kvenna að þessu sinni og fengu 29 verkefni styrk að þessu sinni. Voru þeir afhentir við hátíðlega athöfn í Hörpu nýverið.
Hæsta styrkinn, fjórar milljónir króna, hlaut Anna Bryndís Blöndal fyrir verkefnið „Lyfjafræðileg umsjá“. Lyfjafræðileg umsjá er þjónusta sem hefur verið að ryðja sér til rúms meðal lyfjafræðinga í samstarfi við aðra heilbrigðisstarfsmenn. Í henni felst að fara yfir alla lyfjanotkun sjúklings með það fyrir augum að öðlast yfirsýn yfir virk efni hvers lyfs, samverkanir þeirra og gagn- og aukaverkanir. Markmiðið með því er að skilgreina lyfjanotkunina með sjúklingi og leita bestu leiða til að ná markmiðum lyfjagjafar. Styrkurinn sem Anna Bryndís hlýtur mun nýtast til að þróa hugbúnað sem tengist þessari þjónustu og mun gera lyfjafræðingum og fagaðilum kleift að yfirfara lyf einstaklinga með tilliti til lyfjatengdra vandamála.
Hugbúnaðurinn tengist doktorsverkefni Önnu Bryndísar við Háskóla Íslands, sem hún lauk árið 2017, en markmið þess var annars vegar að rannsaka viðhorf íslenskra heimilislækna til lyfjafræðinga og núverandi samstarf lyfjafræðinga og heimilislækna í ummönnun sjúklinga og hins vegar að kynna fyrir þeim í hverju lyfjafræðileg umsjá felst. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu m.a. að heimilislæknar virtust almennt ekki þekkja til lyfjafræðinga eða hæfni þeirra í umönnun sjúklinga en þeir lýstu yfir ánægju með samstarf við lyfjafræðinga eftir að hafa unnið með þeim að lyfjafræðilegri umsjá.