Tóku þátt í Nordplus námskeiði um lyfjaöryggi
Nemendur og kennarar úr Hjúkrunarfræðideild tóku þátt í 5 ECTS eininga Nordplus-námskeið í lyfjaöryggi hjúkrunarfræðinga (e. Nurses confidence in medication safety) í Saimaa-háskólanum í Lappeenranta í Finnlandi á vegum MEDICO vikuna 27.-31. mars sl.
Markmið námskeiðsins var að skapa umræður um klíníska reynslu, mun á öryggismenningu þessara fimm landa og þá gagnreyndu þekkingu sem starfað er eftir. Á námskeiðinu voru alls 29 nemendur frá háskólum í Finnlandi, Noregi, Danmörku, Álandseyjum og Íslandi. Kennarar námskeiðsins komu frá þessum sömu löndum auk eins kennara frá Svíþjóð.
Námskeiðið var bæði fyrir BS-nema og MS-nema í hjúkrunarfræði. Frá Íslandi voru alls átta nemendur og þrír kennarar. Kennararnir voru Helga Bragadóttir og Guðrún Björg Erlingsdóttir frá Háskóla Íslands og Þorbjörg Jónsdóttir frá Háskólanum á Akureyri.
Frá Háskóla Íslands voru nemendurnir Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásgerður Marteinsdóttir og Kolbrún Gunnarsdóttir BS-nemar, Helga Ýr Erlingsdóttir MS-nemi og Birna Katrín Hallsdóttir, nemi í diplómanámi á meistarastigi.
Námskeiðið tókst með ágætum, efni og kennsluhættir voru fjölbreyttir auk þess sem hugsað var vel um næringu og afþreyingu nemenda og kennara. Þátttakendur hvetja nemendur sem tök hafa á að nýta sér tækifæri sem þessi og sækja alþjóðleg námskeið sem auka víðsýni og efla tengsl milli landa.