Varði doktorsritgerð um málnotkun Íslendinga á netinu
Vanessa Isenmann hefur varið doktorsritgerð sína í íslenskri málfræði, Icelandic digital practices on Facebook: Language use in informal online communication, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Kristjáns Árnasonar, prófessor emeritus við Íslensku- og menningardeild, en með honum í doktorsnefnd voru þau Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar, og Jannis Androutsopoulos, prófessor við Háskólann í Hamburg í Þýskalandi.
Andmælendur við vörnina voru Helga Hilmisdóttir, rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar, og Andreas Stæhr, dósent við Kaupmannahafnarháskóla. Gauti Kristmannsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 21. desember. (Smellið hér til að skoða myndir frá vörninni).
Um rannsóknina
Doktorsritgerð Vanessu kannar málnotkun Íslendinga á netinu. Nánar tiltekið er fjallað um málnotkun í óformlegum samskiptum á Facebook með tilliti til hvata fólks í vali á tungumáli og málsniði, en einnig er hugað að viðhorfum málnotenda til óformlegrar málnotkunar á netinu. Markmið verkefnisins er að skoða hvaða leiðir málhafar nota til tjáningar á Facebook og af hverju. Í brennidepli rannsóknarinnar er form, hlutverk og félagsmálfræðilegt gildi íslensku í óformlegum netsamskiptum. Rannsóknin er sérstaklega tímabær í ljósi þess að breytingar virðast eiga sér stað um þessar mundir í málumhverfi og málvenjum meðal (ungra) Íslendinga, ekki síst í stafrænum miðlum, en það hefur vakið áhyggjur um veika stöðu íslenskunnar í stafrænu umhverfi.
Um doktorsefnið
Vanessa Monika Isenmann lauk BA gráðu í þýskri málfræði og norðurlandafræði frá Humboldt háskóla í Berlín árið 2008 og meistaraprófi í þýsku sem erlendu tungumáli (Deutsch als Fremdsprache) frá sama háskóla árið 2011. Hún starfar nú sem aðjúnkt í þýsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.