Varði doktorsritgerð um þróun tilbrigða í framburði
Margrét Guðmundsdóttir hefur varið doktorsritgerð í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist Mál á mannsævi. 70 ára þróun tilbrigða í framburði – einstaklingar og samfélag. Andmælendur við vörnina voru Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Finnur Friðriksson, dósent við Háskólann á Akureyri. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Höskuldar Þráinssonar, prófessors emeritusar við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Helge Sandøy, prófessor emeritus við Háskólann í Bergen, og Kristján Árnason, prófessor emeritus við Háskóla Íslands.
Jón Karl Helgason, varaforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 3. október. Smellið hér til að skoða myndir frá vörninni.
Um rannsóknina
Í doktorsritgerðinni rannsakar Margrét tilbrigði í íslenskum framburði, nánar tiltekið eftirtalin fjögur pör þar sem fyrrnefnda afbrigðið er sjaldgæfara á landsvísu og útbreiðsla þess að mestu tengd afmörkuðum landsvæðum: Harðmæli/linmæli, raddaður/óraddaður framburður, hv-/kv-framburður og skaftfellskur einhljóðaframburður/tvíhljóðaframburður. Efniviðurinn samanstendur af þremur framburðarrannsóknum sem unnið var að á 70 ára tímabili: Rannsókn Björns Guðfinnssonar frá 5. áratug 20. aldar, RÍN, Rannsókn á íslensku nútímamáli, frá 9. áratugnum og RAUN, Málbreytingar í rauntíma í íslensku hljóðkerfi og setningagerð, sem hófst árið 2010. Enn fremur voru viðhorf til framburðarafbrigða könnuð í tengslum við rannsóknina. Þessi efniviður er nýttur til að kanna þróun landshlutabundnu afbrigðanna fjögurra á kjarnasvæðum sínum og málþróun yfir æviskeiðið, ævibreytingar, en hluti þátttakenda tók þátt í ýmist tveimur eða þremur rannsóknum. Hvort tveggja er skoðað frá sjónarhóli málkunnáttufræði og félagslegra málvísinda.
Um doktorinn
Margrét Guðmundsdóttir lauk BA-prófi í íslensku og meistaraprófi í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands. Hún er verkefnisstjóri Hugvísindastofnunar.