Veronika er þriðji ættliður leiðsögumanna
Veronika Guðmundsdóttir Jónsson var yngst í hópi þeirra sem útskrifuðust út leiðsögunámi frá Endurmenntun HÍ fyrir skömmu. Hæfileikinn er henni í blóð borinn, því faðir hennar, Guðmundur Jónsson, hefur starfað sem leiðsögumaður áratugum saman. Einnig afi hennar, Jón I. Bjarnason, en hann var einn af stofnfélögum ferðafélagsins Útivistar árið 1975. Veronika var upphaflega ekki á leið í þetta nám heldur prófaði fyrst eitt námskeið og þar kviknaði svo áhuginn og ástríðan.
Þótt faðir og afi Veroniku væru og hefðu verið miklir leiðsögumenn hafði hún ekki sýnt því neinn sérstakan áhuga sjálf. Hún hafði t.a.m. aldrei farið hringveginn um Ísland eða ferðast um landið neitt að ráði. Veronika er miðjubarn foreldra sinna og hefur verið sjálfstæð og valið sínar leiðir í lífinu. „Ég fæddist í Bandaríkjunum og bjó þar lengi. Þar lauk ég MA-námi í sagnfræði við Columbia's Graduate School of Arts and Sciences. Áður tók ég BA-gráðuna í sagnfræði í Háskóla Íslands.“
Besta leiðin til að kynnast Íslandi
Að námi loknu langaði Veroniku að starfa í utanríkisráðuneytinu og fékk fund með Sigríði Snævarr heimasendiherra til að spyrja meðal annars út í það. „Í því samtali hvatti Sigríður mig eindregið til að skrá mig á námskeið tengdu leiðsögunáminu hjá Endurmenntun. Þá var aðeins vika eftir af skráningarfrestinum. Ég sló til og skráði mig á námskeiðið leiðsögumaður 1.“
Veronika tekur fram að það sé í raun alveg magnað hversu lítið hún hafði ferðast um Ísland, með þessa forfeður. „Ég er ættuð frá Vestfjörðum og hafði komið þangað en sá kjálki er ekki hluti af hringveginum. Þegar námskeiðið svo hófst fannst mér það svo skemmtilegt að ég hafði samband við Huldu Mjöll Hauksdóttur verkefnastjóra og bað um að verða skráð í allt leiðsögunámið. Það yrði líka frábær leið til að kynnast landinu mínu betur!“
Veronika segist hæstánægð með námið og að það hafi í alla staði verið fróðlegt og skemmtilegt. Guðmundur Björnsson, aðjunkt í ferðamálafræði við HÍ og leiðsögumaður, er kennari námsins og hún segir hann vera mjög skemmtilegan. „Hann kann líka allt, inn og út, um leiðsögubransann og það er mjög flott að Endurmenntun sé með kennara frá Háskóla Íslands í þessu.“ Hún lýsir síðan náminu þannig að bóklegi hlutinn hafi legið vel fyrir henni. Hún væri orðin vön slíku úr sagnfræðinni. „Hins vegar var ég ekki vön að nota vefsjá, gögn frá Hagstofunni og alls kyns tölfræði. Þetta var mjög þvegfræðilegt nám með blöndu af mannfræði, lífríkinu, jarðfræði og hagfræði. Við fórum yfir staðreyndir um land og þjóð. Svakalega margt nýtt sem ég lærði og ég kynntist í raun landi og þjóð mjög hratt og vel á skömmum tíma.“
Hringferð um landið á sex dögum
Líkt og venja er í leiðsögunáminu hjá Endurmenntun HÍ fór nemendahópurinn í hringferð um Ísland á sex dögum þar sem gist var á fimm stöðum. „Við fórum á ótrúlega marga staði og í raun á eins marga staði og hægt var að fara á á svona skömmum tíma. Það var svo margt sem við sáum og upplifðum sem ég hafði ekki hugmynd um að væri til; alls kyns rekstraraðilar, söfn og staðir,“ segir Veronika og tekur fram að hún hafi til að mynda aldrei komið í Skagafjörð. „Á Sauðárkróki er 1238 veruleikasafnið um Örlygsstaðabardaga. Það var geggjað að koma þangað og upplifa þennan sýndarveruleika sem ég lærði allt um í sagnfræðinni hjá Sverri Jakobssyni í HÍ!“ Beðin um að lýsa þessu betur segir Veronika að fyrst sé kynning á sögu þessa þekkta bardaga frá árinu 1238 og svo setji þátttakendur á sig búnað og fá tækifæri til að hjálpa Sturlu Sighvatssyni. „Sturla er voða hreinn og sætur þarna og líklega ekki eins og hann var í raun,“ segir hún og skellihlær.
Veronika segir að góð tenging hafi orðið innan nemendahópsins og skemmtileg stemning. „Síðasta kvöldið vorum við búin að tala mikið um gervigreind og ég sýndi nokkrum hvernig Chat GPT virkar og lét forritið semja rapplag um hópinn. Svo bara sungum við það saman, agalega stolt og mikið hlegið.“ Lokaverkefni allra nemenda í leiðsögunáminu snýst svo um að búa til hringferð, pakkaferð, um landið. „Það er sko miklu meira en að segja það og mikil áskorun. Það þarf að velja markhóp, þema og passa upp á allar tímasetningar, opnunartíma og að sjálfsögðu að gera ráð fyrir alls konar veðri. Þetta er Ísland!“ Veronika valdi markhópinn heldri borgara og bjó til sögulega ferð um Ísland með áherslu á söfn og segist hafa fengið allt aðra sýn á söfn eftir það.
Ætlar að leiðsegja í sumar
Í sumar mun Veronika að sjálfsögðu vera í hlutverki leiðsögumanns um helgar á vegum fyrirtækisins Iceland Travel. „Það verður líklega mestmegnis Gullni hringurinn, Suðurströndin og Snæfellsnesið. Ég er mjög spennt fyrir því. Pabbi spurði mig líka hvort ég væri ekki til í að taka nokkra túra eftir útskrift og mér finnst ég tilbúin til þess núna.“
Við vekjum athygli á því að frestur til að sækja um í þetta fjölbreytta og skemmtilega nám hefur verið framlengdur til 26. júní. Allar upplýsingar um námið er að finna hér.