Viðurkenningar til doktorsnema í lyfjafræði
Fjórir doktorsnemar við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala. Þetta eru þau Finnur Freyr Eiríksson, Tijana Drobnjak, Venu Gobal Reddy Patlolla og Agnieszka Popielec. Rannsóknir þeirra ná yfir mjög breytt svið innan lyfjafræðinnar, allt frá grunnrannsóknum í eðlislyfjafræði yfir í rannsóknir á meðferðarvirkni nýrra lyfjasamsetninga.
Þetta er í ellefta sinn sem doktorsnemum í lyfjafræði og/eða lyfjavísindum við Háskóla Íslands er veitt viðurkenning úr sjóðnum fyrir framúrskarandi rannsóknir. Heildarupphæð styrksins er 1,2 milljónir króna og fær hver styrkhafi fyrir sig 300.000 krónur.
Um doktorsverkefni Finns Freys Eiríkssonar: Verkefnið miðar að því að greina og skilja fituefnaskiptamynstur krabbameinsfrumna. Efnið prótolichesterinsýra, sem er einangrað úr íslenskum fjallagrösum, hefur hemjandi áhrif á fjölgun margra tegunda af krabbameinsfrumum en lítil áhrif á eðlilegar frumur. Verkefnið þróaðist út frá niðurstöðum sem bentu til áhrifa fléttuefnisins á fituefnaskipti en þau skipta máli fyrir vöxt og dreifingu illkynja æxla. Markmið verkefnisins er því að þróa aðferðir til skimunar og magngreiningar á fituefnum í krabbameinsfrumum. Með skimunaraðferðinni er hægt að greina heildarmynd fituefna (e. lipidomics) í ræktuðum frumum og kanna m.a. hvort og hvernig fituefnabúskapur krabbameinsfrumna er ólíkur því sem er í eðlilegum frumum, hvort munur er á fituefnabúskap mismunandi krabbameinsfrumna og hvaða áhrif efni eins og prótolichesterinsýra hafa á fituefnabúskap krabbameinsfrumna með lyfjaþróun í huga.
Finnur Freyr lauk meistaraprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 2010. Hann hóf doktorsnám árið 2011 við Lyfjafræðideild og Læknadeild Háskóla Íslands.
Um doktorsverkefni Tijönu Drobnjak: Meðgöngueitrun er ein algengasta orsök barna- og mæðradauða á heimsvísu og lýsir sér m.a. með hækkuðum blóðþrýstingi og eggjahvítu í þvagi. Meðgöngueitrun er einnig talin forveri hjarta- og æðasjúkdóma sem geta komið upp seinna á ævinni. Fylgjuprótein 13 (PP13) er sértækt mannaprótein sem mælist í mjög lágum styrk í blóði á fyrsta þriðjungi meðgöngu hjá þeim konum sem síðar greinast með meðgöngueitrun á öðrum eða þriðja þriðjungi meðgöngu. Doktorsverkefnið snýst um að öðlast skilning á áhrifum og virkni þessa próteins en niðurstöður rannsókna Tijönu og samstarfsfólks hafa m.a. sýnt á að PP13 hefur æðavíkkandi áhrif. Það hefur jafnframt langtímaáhrif á bláæðar í legi sem víkkuðu marktækt meira en hjá samanburðarhópi sem fékk lyfleysu í stað PP13. Lyfjahvarfarannsóknir sýna jafnframt að virkni PP13 er skammtaháð og benda niðurstöður til þess að það magn sem er seytt af fylgju sé mögulega mun hærra en áður var talið.
Tijana lauk meistaraprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Hún hóf doktorsnám árið 2014 við Lyfjafræðideild.
Um doktorsverkefni Venu Gopal Reddy Patlolla: Verkefnið snýst um að þróa örugga meðferð við bólgum í slímhimnu munnholsins með því að hemja bólgutengd ensím er kallast matrix metalloproteinases (MMPS). Til þess eru notaðir vægir skammtar af sýklalyfinu doxycyclin. Þetta lyf er mjög óstöðugt og brotnar auðveldlega niður, sérstaklega í vatnslausnum, og það er jafnframt viðkvæmt fyrir ljósi og hitastigsbreytingum. Niðurstöður sýna að tekist hefur að ná meira en 5 ára geymsluþoli við 4°C. Þar að auki hafa verið þróuð hýdrógel sem innihalda bæði doxycyclin og monocaprin til að meðhöndla bólgur og svepp sem nefnist candidosis. Rannsóknir staðfestu einnig virkni monocaprins gegn þessum sveppi. Áframhaldandi rannsóknir hafa leitt til þróunar á míkróögnum með mikla viðloðunarhæfni þar sem doxycyclin er tengt saman við fjölliður og stöðgandi efni. Einnig hafa verið þróaðar munnfilmur sem innihalda doxycyclin míkróagnir sem byggðar eru á hálfföstum filmum. Öll þessi lyfjaform hafa verið skoðuð með tilliti til eðlisefnafræðilegra eiginleika þeirra svo hægt verði að nota þau á öruggan hátt í slímhúð munnholsins. Einnig voru öll lyfjaformin stöðluð þannig að losun lyfsins væri sem hentugust og það hefði góða viðloðun við slímhimnu munnholsins.
Venu G. R. Patlolla lauk BS-gráðu í lyfjafræði frá Osmania-háskólanum í Hyderabad á Indlandi og meistaragráðu frá Lyfjafræðideild Háskóla Íslands 2014. Hann hóf doktorsnám við Lyfjafræðideild og Tannlæknadeild HÍ 2015.
Um doktorsverkefni Agnieszku Popielec: Markmið doktorsverkefnisins er að rannsaka notkun sýklódextrína, sýklódextrínfjölliða og nanóagna til að auka stöðugleika svokallaðra β-Laktam sýklalyfja í vatnslausnum. β-Laktam sýklalyf eru virk gegn ýmsum gram-jákvæðum og gram-neikvæðum örverum, bakteríum sem bregðast á mismunandi hátt við svokallaðri gram-vefjalitun, en stuttur helmingunartími lyfjanna í líkamanum og óstöðugleiki dregur mjög úr virkni þeirra. Auk þess geta niðurbrotsefni β-laktam lyfja valdið útbrotum og öðrum ofnæmisviðbrögðum. Þess vegna er mikilvægt að þróa aðferðir til að auka stöðugleika β-laktam sýklalyfja. Þróuð var aðferð til að auka aðgengi og stöðugleika β-laktana en einnig voru voru fléttur auðkenndar með viðeigandi aðferðum.
Agnieszka Popielec lauk meistaraprófi í efnafræði frá Marie Curie-Sklodowska háskólanum (UMCS) í Lublin í Póllandi árið 2013 og hóf doktorsnám í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands árið 2014.
Um styrktarsjóðinn
Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði og rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu rannsóknasamstarfi.
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar í maí árið 2001 til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem hefur það að markmiði að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti.
Bent Scheving Thorsteinsson lést á Landspítalanum 7. janúar 2015 á 93. aldursári. Hann var einn af mestu velunnurum Háskóla Íslands og munu sjóðirnir sem hann stofnaði við háskólann halda minningu hans á lofti um ókomin ár.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.