Skip to main content
10. febrúar 2017

Víkka út rannsókn á líðan leik- og grunnskólabarna

""

Umfangsmikil rannsókn á hegðun og líðan leik- og grunnskólabarna, sem fram fer við Sálfræðideild Háskóla Íslands, hefur verið víkkuð út og nær nú til tveggja árganga í stað eins. Um er að ræða langtímarannsókn á tengslum tilfinningastjórnunar, hegðunar og líðan íslenskra barna. Fæðingarárgöngunum 2010 og 2011 á höfuðborgarsvæðinu verður fylgt eftir frá leikskóla upp í 3. bekk grunnskóla. 

Markmið rannsóknarinnar er að kortleggja frávik í tilfinningastjórnun, hegðun og líðan barnanna og fylgjast með þróun þeirra frá 5 til 9 ára. Þetta er ein fyrsta langtímarannsóknin í heiminum þar sem frávik í tilfinningastjórnun í tengslum við þróun hegðunarvanda og ADHD eru skoðuð með þessum hætti og í fyrsta sinn sem ráðist er í rannsókn af þessu tagi hér á landi. Meðal barna á aldrinum 5 til 9 ára er algengt að hegðunarvandi komi fram í skólanum og jafnframt virðist þetta aldursbil vera sérstaklega viðkvæmt hvað varðar upphaf fylgiraskana ADHD. Rannsóknin mun veita mikilvægar upplýsingar um þróun ýmissa kvilla hjá börnum á þessum aldri sem munu nýtast við hönnun forvarnar- og meðferðarúrræða. 

Rannsóknin hófst vorið 2016 og er unnin í samvinnu við öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í henni eru hvattir til að fylgjast vel með kynningarbréfi sem leikskólar senda á foreldra, en búið er að hafa samband við alla leikskóla í Reykjavík, Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi. 

Rannsóknin fer þannig fram að foreldrar og kennarar svara nokkrum rafrænum spurningalistum einu sinni á ári í fjögur ár. Þau börn sem mælast með frávik í hegðun eða líðan í 1., 2. eða 3. bekk verður boðið upp á nánara mat sem felur í sér ítarlegt greiningarviðtal við foreldra og í einhverjum tilvikum verður lagt greindarpróf fyrir barnið. Til að auka áreiðanleika niðurstaðna er mikilvægt að fá sem flesta þátttakendur og eru veglegir happdrættisvinningar í boði fyrir þá sem taka þátt. 

Ávinningur rannsóknarinnar verður talsverður þar sem ekki aðeins er um að ræða mikilvægar upplýsingar um hegðun og líðan leik- og grunnskólabarna heldur fá börnin sem taka þátt ítarlegt mat á hugsanlegum vanda og það jafnvel fyrr en kerfið sjálft býður upp á, enda vel þekkt að biðlistar eftir slíkri þjónustu eru langir hérlendis.

Nánari upplýsingar um rannsóknina veitir Guðlaug Marion Mitchison, doktorsnemi og sálfræðingur, í netfanginu gmm@hi.is

""
Barnaúlpur