Skip to main content
8. desember 2015

Vinna bug á mýtum um heilsu

Doktorsnemar og nýdoktorar við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands hafa sett á stofn heimasíðu með heilsutengdri fræðslu fyrir almenning. Verkefnið nefnist Heilsan okkar og er markmið þess að miðla þekkingu um heilsutengd málefni sem byggist á vísindarannsóknum og sérfræðikunnáttu fræðimanna. Heimasíðan fór í loftið í júní sl.

„Með vefsíðunni viljum við skapa vettvang þar sem fólk getur nálgast áreiðanlegar og gagnlegar upplýsingar um heilbrigða lífshætti og fjalla á faglegan hátt um ýmsar mýtur sem ganga manna á milli,“ segir Edda Björk Þórðardóttir, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum. Á síðunni er nú þegar að finna fjöldann allan af fróðlegum og aðgengilegum greinum en efni þeirra má skipta má í fjóra meginflokka: hugur, líkami, næring og svefn. 

Viðtökur heimasíðunnar hafa verið góðar enda eru fáar íslenskar síður í boði þar sem sérfræðingar miðla heilsutengdu efni með heildstæðri nálgun. „Það er von okkar að fá fleiri vísindamenn til samstarfs við okkur og hér er einstakt tækifæri fyrir þá til að koma þekkingu sinni á framfæri,“ segir Edda Björk. Fastir greinahöfundar á síðunni eru núna um níu talsins og koma af ýmsum sviðum heilbrigðisvísinda. Fræðimenn sem hafa áhuga á að senda inn greinar eru hvattir til þess að hafa samband við Eddu Björk (postur@heilsanokkar.is). 

Öllum greinum af Heilsan okkar er einnig dreift í gegnum Facebook síðu verkefnisins sem hefur nú rúmlega 2000 fylgjendur. 

Lára G. Sigurðardóttir, Edda B. Þórðardóttir, Jóhanna E. Torfadóttir, Védís H. Eiríksdóttir, Maríanna Þórðardóttir, Ragnhildur G. Finnbjörnsdóttir, Emma Swift.