Vinna hafin við nýtt heilbrigðisvísindahús
Haustþing Heilbrigðisvísindasviðs fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 4. október sl. Þingið var tileinkað þarfagreiningu fyrir nýtt húsnæði Heilbrigðisvísindasviðs.
Ólafur Pétur Pálsson, prófessor í iðnaðar- og vélaverkfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, hefur verið skipaður af rektor HÍ til þess að leiða vinnuna við þarfagreininguna. Með honum starfar Sigurlaug Ingibjörg Lövdahl, skrifstofustjóri framkvæmda- og tæknisviðs.
Ólafur Pétur tók til máls á þinginu og fjallaði um vinnuna við þarfagreininguna. Markmiðið með henni er að fá yfirsýn yfir starfsemi og framtíðarþarfir hinna ýmsu eininga sviðsins. Vinnan hófst í mars sl. og hefur nú þegar verið rætt við fjölmarga aðila innan sviðsins. Einnig hefur verið rýnt í ýmis gögn eins og sjálfsmatsskýrslur deilda og tölur um nemendafjölda og brautskráningar síðustu ára. Slík vinna mun halda áfram á næstu vikum. Jafnframt verða settir á laggirnar vinnuhópar sem fjalla um þarfir í ákveðnum málaflokkum eins og kennslu, rannsóknum og þjónustu. Þarfagreiningunni mun ljúka vorið 2018. Skoða kynningu Ólafs Péturs.
Inga Þórsdóttir, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs, fjallaði um stöðuna í húsnæðismálum sviðsins. Í framkvæmdaáætlun Háskólans er gert ráð fyrir að reisa nýbyggingu á fjórum hæðum við Læknagarð (9.300m2). Einnig er gert ráð fyrir endurbótum á Læknagarði og Eirbergi. Reynt verður að koma sem mestu af starfsemi sviðsins fyrir í byggingunum þremur og Vísindagörðum. Reiknað er með að kostnaður verði um 7,5 – 8 milljarðar og greiðist af happdrættisfé sem samsvarar um tíu ára framlagi frá HHÍ. Þegar þarfagreiningu lýkur á árinu 2018 verður farið í útboð. Framkvæmdir við nýbyggingu munu hefjast árið 2020 og ljúka 2023. Skoða kynningu Ingu.
Að lokinni umfjöllun sviðsforseta hófst vinna í þarfagreiningu fyrir nýtt húsnæði. Þátttakendum á þinginu var skipt upp í níu umræðuhópa og hver hópur fjallaði um ákveðið efni. Umfjöllunarefnin voru: kennslurými fyrir fræðilega kennslu; kennslurými fyrir verknám, færnisetur og rannsóknastofur; aðstaða nemenda; rannsóknastofur og starfsstöðvar og önnur aðstaða. Í hópunum voru starfsmenn Heilbrigðisvísindasviðs, bæði stoðþjónusta og akademískir starfsmenn ásamt fulltrúum nemenda. Skoða umfjöllunarefni hópanna.
Helstu niðurstöður hópanna voru kynntar stuttlega í lok þings en samantekt frá þeim verður birt á heimasíðu sviðsins í Uglu. Jafnframt verður unnið áfram með niðurstöðurnar í þarfagreiningunni fyrir nýtt húsnæði. Þann 15. nóvember verður svo opnað fyrir rafræna gátt þar sem starfsmenn og nemendur geta komið á framfæri þörfum varðandi nýtt húsnæði. Gáttin verður opin til ársloka.
Fundarstjóri á haustþingi Heilbrigðisvísindasviðs var Vilborg Lofts, rekstrarstjóri sviðsins.