Óendanleg tækifæri í nýsköpun
„Nýsköpun er langt og strangt ferli og sumir hlutar þess geta varla orðið að veruleika ef ekki er vakin athygli á hugmyndum innan háskóla,“ segir Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor emeritus við Matvæla- og næringarfræðideild.Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands stendur fyrir nýsköpunarráðstefnu í annað sinn þann 12. nóvember nk. á Radisson BLU Hótel Sögu. Starfsfólki, nemendum og öðrum samstarfsaðilum háskólans gefst þar kostur á að kynna verkefni og hugmyndir um nýsköpun í heilbrigðisvísindum.
Ágústa sat í undirbúningsnefnd fyrir fyrstu nýsköpunarráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs sem haldin var árið 2013 og tókst afar vel. Hún segir brýnt að skapa vettvang þar sem starfsfólk og nemendur háskólans geti kynnt hugmyndir sínar. „Á alþjóðavísu er þetta hluti af menningu skólanna og þykir nauðsynlegur hluti náms og starfs. Í kringum öfluga háskóla er vagga nýsköpunar og því meiri sem hún er þeim mun fleiri tækifæri skapast á öflugum rannsóknastyrkjum. Þar að auki finnst mér hvíla sú skylda á okkur sem störfum eða nemum innan háskóla að auka fjölbreytni og tækifæri í hátæknigreinum atvinnulífsins. Það þurfa ekki allir að stunda nýsköpun innan háskóla en í sumum greinum er nýsköpun sjálfsprottin. Tækifærin í nýsköpun innan heilbrigðisvísinda eru næstum því óendanleg,“ segir Ágústa sem hefur sjálf verið viðloðandi nýsköpun í líftækni um árabil en hún er rannsóknastjóri fyrirtækisins Zymetech sem nýtir meltingarensím úr þorski í lækninga- og snyrtivörur. Fyrirtækið hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2015.
Þátttakan og áhuginn endurspeglar gróskuna
Að sögn Ágústu kom það bersýnilega í ljós á síðustu nýsköpunarráðstefnu að mikil gróska er í nýsköpun í heilbrigðisvísindum hér á landi. Tæplega hundrað manns tóku þátt og í þeim hópi var vísindafólk frá flestum deildum og námsbrautum Heilbrigðisvísindasviðs ásamt fólki af öðrum vettvangi. Má þar nefna Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, Raunvísindastofnun háskólans, Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, Listaháskóla Íslands, Landspítala - háskólasjúkrahús, Blóðbankann, Össur auk annarra fyrirtækja og stofnana. „Þátttakan var í raun meiri en við reiknuðum með og það var mikil fjölbreytni í þeim verkefnum sem kynnt voru. Nýsköpun í heilbrigðisvísindum er mjög mikil á heimsvísu, jafnvel einna mest allra greina. Hugbúnaðargeirinn er ennþá stærstur en hann nær einnig til heilbrigðisvísinda,“ segir Ágústa að lokum sem segist hlakka til ráðstefnunnar í nóvember.
Á dagskrá verða þverfræðilegar málstofur, veggspjalda- og vörusýningar og opnir fyrirlestrar fyrir almenning. Skilafrestur ágripa er til 15. október.
Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur er ókeypis. Sjá nánar á vefsíðu ráðstefnunnar: radstefnurhvs.hi.is