Sjónum beint að álagi ungs vísindafólks
Hádegisfundur á vegum jafnréttisnefndar Háskóla Íslands og jafnréttisnefnda Heilbrigðisvísindasviðs og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs fór fram í Lögbergi þann 13. október síðastliðinn og tókst afar vel. Yfirskrift fundarins var „Að brjóta heilann: Samspil einkalífs og ungs vísindafólks við Háskóla Íslands“ og voru þar líðan og álag í starfi vísindafólks í brennidepli. Á fundinum fjallaði ungt vísindafólk um sína upplifun af því að flétta saman ábyrgð á tveimur vígstöðvum, í háskólasamfélaginu og heima fyrir.
Hildur Halldórsdóttir, verkefnisstjóri á starfsmannasviði Háskóla Íslands, tók fyrst til máls og greindi frá helstu niðurstöðum um streitu í starfsánægjukönnun meðal starfsmanna háskólans sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Þar kom meðal annars fram að starfsánægja hefur aukist frá fyrri könnun sem gerð var 2012 þrátt fyrir að streita mælist nú meiri. Streitan mældist mest í aldurshópnum 40-49 ára og meðal akademískra starfsmanna en nánari skoðun á streitu er eitt af umbótaverkefnum Háskóla Íslands 2015.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, hélt því næst erindi undir heitinu „Hvar eru svörtu buxurnar mínar?“ Í umfjöllun Ingibjargar varpaði hún fram hugleiðingum um hvernig hún tekst á við samþættingu vinnu og einkalífs. Erindi Ingibjargar gaf góða innsýn inn í hversdagslíf vísindakonu sem gegnir mörgum og oft ólíkum hlutverkum.
Valentina Giangreco Puletti, dósent við Raunvísindadeild, lýsti í erindi sínu þeim breytingum sem eiga sér stað við það að fara úr starfi nýdoktors yfir í akademíska stöðu. Umskiptin eru einkum fólgin í aukinni kennsluskyldu og ábyrgð, kröfu um aukin afköst og gerð styrkumsókna. Hún nefndi sérstaklega að síaukin áhersla á styrkjasókn geri starfið erfiðara og að kerfið mismuni konum á margan hátt.
Einar Pétur Heiðarsson, doktorsnemi við Líf- og umhverfisvísindadeild og fulltrúi frá FeDon (Félag doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands), fjallaði um starfsemi félagsins og jafnan rétt til náms. Félagið var sett á laggirnar árið 2009 og hefur doktorsnemum við háskólann fjölgað umtalsvert frá stofnun þess. Hagsmunabarátta félagsins er því ung og skortir á margan hátt þann kraft og þátttöku sem einkennir sams konar baráttumál grunnnema.
Að erindum loknum fóru fram líflegar umræður um mögulegar úrbætur. Fundarstjóri var Magnús Lyngdal Magnússon, aðstoðarmaður rektors Háskóla Íslands.
Viðburðurinn var liður í dagskrá Jafnréttisdaga Háskóla Íslands.