Skip to main content
3. desember 2015

Fengu hvatningarstyrki Landspítala til rannsókna

""

Þrír prófessorar við Læknadeild Háskóla Íslands, sem jafnframt starfa við Landspítala – háskólasjúkrahús, tóku fyrr í vikunni við fimm milljóna króna hvatningarstyrkjum úr Vísindasjóði Landspítala við athöfn í Hringsal spítalans. Styrkirnir renna til rannsóknahópa sem þau veita forystu. 

Þetta er í sjötta sinn sem styrkir af þessu tagi eru veittir sterkum rannsóknarhópum á spítalanum sem þegar hafa öðlast alþjóðlega viðurkenningu. Að þessu sinni bárust sjö umsóknir og tóku forystumenn þriggja rannsóknarhópa við styrkjum. Það eru þau Gunnar Guðmundsson lungnalæknir, Jóna Freysdóttir, forstöðunáttúrufræðingur og prófessor í ónæmisfræði, og Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga.

Gunnar Guðmundsson, lungnalæknir og  prófessor við Læknadeild, vinnur ásamt samstarfsaðilum að rannsóknum á lungnatrefjun sem er bandvefsmyndun í millivef lungna. Fjöldamargar gerðir af lungnatrefjunarsjúkdómum eru til en orsakir sumra þeirra eru óþekktar. Samstarfsaðilar í rannsóknunum eru bæði hér á landi, í Bandaríkjunum og annars staðar á Norðurlöndum.

Jóna Freysdóttir, forstöðunáttúrufræðingur á Landspítala og prófessor í ónæmisfræði, hefur ásamt samstarfsfólki sínu rannsakað áhrif ómega-3 fjölómettaðra fitusýra og annara valdra náttúruefna á myndun og hjöðnun bólgu. Samstarfsaðilar Jónu starfa við ýmsar stofnanir  og fyrirtæki innan lands auk þess að starfa í Hollandi, Svíþjóð og Bandaríkjunum.

Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga og prófessor  í nýrnasjúkdómafræði, vinnur að rannsóknum á langvinnum nýrnasjúkdómum, bráðum nýrnaskaða og tengslum erfða og nýrnasjúkdóma. Samstarfsfólk hans í rannsóknunum er að finna bæði hér á landi, í Bandaríkjunum og Svíþjóð.

Nánari upplýsingar um rannsóknahópana:

Frá vinstri: Runólfur Pálsson, Jóna Freysdóttir, Gunnar Guðmundsson og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.