Skip to main content
1. júní 2016

Vel heppnuð vinnustofa fyrir leiðbeinendur doktorsnema

""

Heilbrigðisvísindasvið, Miðstöð framhaldsnáms og Kennslumiðstöð HÍ stóðu fyrir heilsdags vinnustofu fyrir leiðbeinendur doktorsnema þann 24. maí sl. á Háskólatorgi. Húsfyllir var á vinnustofunni en 44 þátttakendur voru skráðir til leiks. 

Markmið vinnustofunnar var að undirbúa og styðja þátttakendur í hlutverki leiðbeinanda doktorsnema og veita tækifæri til skoðanaskipta. Þátttakendur þurftu að undirbúa sig fyrir komu og fengu m.a. sendan leslista og spurningar í aðdraganda vinnustofunnar.

Á vinnustofunni var m.a. fjallað um reglur Háskóla Íslands um doktorsnám og viðmið og kröfur skólans um gæði doktorsnáms. Starfsemi Miðstöðvar framhaldsnáms var einnig kynnt. Reyndir leiðbeinendur úr Háskóla Íslands voru fengnir til þess að miðla af reynslu sinni, en það voru þau Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild, Gretar L. Marinósson, prófessor emeritus við Menntavísindasvið, og Þórarinn Guðjónsson, prófessor við Læknadeild. Hópavinna var einnig hluti af dagskrá.  

Sérstakur gestur á vinnustofunni var forseti OPRHEUS-samtakanna, Robert Harris, prófessor við Karolinska Institutet í Svíþjóð. Hann fjallaði um hlutverk og skyldur leiðbeinenda, mismunandi aðferðir við leiðbeiningu og samskipti leiðbeinenda og doktorsnema. Robert flutti einnig áhugavert erinindi um hvernig tekið er á árekstrum í námi og starfi. Glærur frá erindum Robert Harris má nálgast hér. 

Efnt var til vinnustofunnar í kjölfar þess að doktorsnám við Heilbrigðisvísindasvið hefur hlotið ORPHEUS-gæðavottun. Sjá nánari upplýsingar um gæðavottunina. 

Skoða fleiri myndir frá vinnustofunni. 

Frá vinnustofunni á Háskólatorgi.
Frá vinnustofunni á Háskólatorgi.