Skip to main content
21. júní 2016

Hlutu styrk úr Jafnréttissjóði Íslands

""

Þrír vísindamenn af Heilbrigðisvísindasviði hlutu nýverið styrk úr Jafnréttissjóði Íslands. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Iðnó þann 19. júní sl. 

Agnes Gísladóttir, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum, hlaut 1,5 milljóna króna styrk fyrir verkefnið:

„Fæðingarútkomur kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi: Einkenni nýburans“

Markmið verkefnisins er að skoða hvort samband sé á milli útsetningar (e.exposure) kvenna fyrir kynferðisofbeldi á unglings-eða fullorðinsárum og óæskilegra útkoma tengdum meðgöngu og fæðingu síðar á lífsleiðinni. Í þeim hluta verkefnisins sem þessi rannsókn snýr að verður skoðað hvort nýburar kvennanna séu í aukinni áhættu á óæskilegum einkennum við fæðingu, samanborið við nýbura kvenna sem ekki hafa orðið fyrir slíku ofbeldi. 

Eiríkur Örn Arnarson, prófesor við Læknadeild, hlaut 3 milljóna króna styrk fyrir verkefnið: 

„Umfang, eðli og kostnaður vegna heimilisofbeldis karla í garð kvenna á Íslandi“

Markmiðið er að rannsaka umfang, eðli og kostnað, sem hlýst af þegar karlmenn beita konur heimilisofbeldi. Miðað er við árin 2013 og 2014, að konan sé íslensk og 18 ára eða eldri þegar atvik átti sér stað. Ennfremur að gerandi hafi þá eða áður verið sambýlismaður/unnusti/eiginmaður eða barnsfaðir þolanda. Rannsökuð verða gögn sem tengjast heilbrigðisþjónustu, lögreglu og dómstólum og félagslega kerfinu. Hliðstæð rannsókn hefur ekki verið unnin á Íslandi og brýnt að kanna umfang, eðli og hve miklum fjármunum er varið í málaflokkin.

Rebekka Sigrún D Lynch, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum, fékk 2,5 milljóna króna styrk fyrir verkefnið: 

„Ofbeldi gegn konum: Þáttur erfða og lífeðlislegra ferla í heilsufari þolenda til langframa“

Rannsóknin er doktorsverkefni í lýðheilsuvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Meginmarkmið verkefnisins er að öðlast betri skilning á afleiðingum ofbeldis og því lífeðlisfræðilega ferli sem er hrint af stað í þolandanum við ofbeldi. Vonin er að með betri þekkingu getum við bæði bætt heilbrigðisþjónustu fyrir þolendur ofbeldis og jafnframt komið í veg fyrir alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar með réttum forvörnum.

Þetta er í fyrsta sinn sem styrkir eru veittir úr Jafnréttissjóði Íslands en sjóðurinn var stofnaður í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna árið 2015. Tæplega 100 milljónir króna voru til úthlutunar og voru styrkir veittir til verkefna og rannsókna sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna. Alls bárust 114 umsóknir en að þessu sinni hlutu 42 umsækjendur styrk. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Velferðarráðuneytisins.

Styrkhafar úr Jafnréttissjóði Íslands 2016.
Styrkhafar úr Jafnréttissjóði Íslands 2016.