Auknir möguleikar til skiptináms í Suður-Kóreu
Nemendum við Háskóla Íslands opnast auknir möguleikar til skiptináms í Suður-Kóreu með nýjum samstarfssamningi um stúdentaskipti sem skólinn hefur gert við Korea University. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Jaeho Yeom, rektor Korea University, undirrituðu samninginn í Háskóla Íslands í síðustu viku.
Korea University er einkaháskóli með bækistöðvar bæði í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu, og stjórnsýsluborginni Sejong um 70 km frá höfuðborginni. Auk þess tilheyra þrjú sjúkrahús skólanum. Nemendafjöldi er nærri 36.000 og þar af eru um 4.000 alþjóðlegir nemendur. Háskólinn er virtur á alþjóðavettvangi og er m.a. í 98. sæti á hinum þekkta QS-lista yfir bestu háskóla heims.
Vaxandi áhuga hefur gætt meðal nemenda Háskóla Íslands á skipitnámi í Suður-Kóreu í ýmsum námsgreinum en Háskólinn er þegar með samning við einn skóla þar í landi, Sungkyunkwan University í Seúl. Þrír nemar í Háskóla Íslands dvelja þar í skiptinámi í vetur. Með hinum nýja samningi við Korea University opnast fleiri möguleikar fyrir nemendur Háskóla Íslands á skiptinámi í Suður-Kóreu en Korea University býður upp á fjölbreytt námsframboð á ensku eins og sjá má á heimasíðu skólans.
Eins og fyrr segir kom rektor Korea University, Jaeho Yeom, sérstaklega hingað til lands til þess að undirrita samning um stúdentaskipti við Háskóla Íslands en með honum í för var Sunhyuk Kim, prófessor og aðstoðarrektor alþjóðasamskipta skólans.
Nemendur Háskóla Íslands geta sótt um skiptinám við Korea University frá og með upphafi árs 2018.