Þrjú verðlaunuð fyrir vísindastörf sín á Landspítalanum
Þrír vísindamenn við Háskóla Íslands og Landspítala tóku við viðurkenningum fyrir störf sín á árlegri uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala, Vísindi á vordögum, sem fram fór í gær. Þetta eru þau Björn Rúnar Lúðvíksson og Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessorar við Læknadeild Háskólans, og Berglind Hálfdánsdóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild.
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar og prófessor í ónæmisfræði, hlaut viðurkenningu sem heiðursvísindamaður Landspítala 2017. Björn Rúnar, sem verið hefur prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands undanfarin tíu ár, hefur í rannsóknum beint sjónum sínum að tilurð og afleiðingum meðfæddra ónæmisgalla og stjórnun bólgusvars sjálfsónæmissjúkdóma en jafnframt að þróun stoðtækja í gegnum öpp og veflausnir til að styðja við og auðvelda greiningu, eftirlit og meðferð gigtar- og ónæmissjúkdóma. Rannsóknirnar hafa m.a. lagt grunn að einkaleyfum tengdum lyfjameðferð sjálfsónæmissjúkdóma og lagt grunninn að sprotafyrirtækjum í Bandaríkjunum og á Íslandi en Björn Rúnar er einn af aðalstofnendum sprotafyrirtækisins eXpeda ehf. sem er starfandi hér á landi.
Björn Rúnar hefur einnig verið afkastamikill við ritun fræðslu-, kennslu- og vísindagreina en eftir hann liggja um hundrað slík rit auk nokkur hundruð fyrirlestra og ágripa í tengslum við innlendar og erlendar vísindaráðstefnur. Þá hefur hann leiðbeint fjölda lækna-, líffræði-, lífeindafræði-, hjúkrunarfræði- og líftölvunarfræðinema í rannsóknarnámi og gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum sem snúa að sérgrein hans innan- og utanlands.
Berglind Hálfdánsdóttir er ungur vísindamaður Landspítala 2017 en hún sinnir ljósmóðurstörfum, verkefnavinnu og rannsóknarvinnu á fæðingarvakt Landspítala og er lektor í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild. Hún lauk doktorsprófi í ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands í fyrir rúmu ári en doktorsritgerð hennar bar heitið „Fyrirfram ákveðnar heimafæðingar á Íslandi: Forsendur, útkoma og áhrifaþættir“.
Markmið rannsóknarinnar var að skoða sjálfræði kvenna um val á fæðingarstað, bera saman útkomu fyrirfram ákveðinna heimafæðinga og sjúkrahúsfæðinga á Íslandi og meta áhrif frábendinga og viðhorfa kvenna á útkomu fæðinga. Berglind hlaut rannsóknarstyrki til doktorsnáms frá Rannsóknarnámssjóði Rannís, Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda, Rannsóknasjóði Ljósmæðrafélagsins og Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur.
Eftir doktorsnám hefur Berglind haldið áfram rannsóknum á heimafæðingum og tekur um þessar mundir þátt í samnorrænni rannsókn á útkomu heimafæðinga á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Hún tekur einnig þátt í fjölþjóðlegri rannsókn á tíðni inngripa í fæðingum og tengslum inngripatíðni og útkomu fæðinga í ólíkum löndum. Enn fremur leiðir Berglind rannsókn á útkomu fæðinga í tengslum við heilsufars- og áhættuflokkun á fæðingarvakt Landspítala.
Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í lýðheilsuvísindum við Læknadeild, hlaut verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði og skyldum greinum að upphæð fimm milljónir króna en þetta eru einhver stærstu verðlaun sem veitt eru fyrir vísindastörf hér á landi.
Unnur er án efa meðal fremstu og þekktustu fræðimanna heims á sínu sviði en hún hefur hlotið fjölda stórra rannsóknarstyrkja, nú síðast 240 milljóna króna styrk frá Evrópska vísindaráðinu til rannsókna á samspili erfða og heilsufarslegra afleiðinga alvarlegra sálrænna áfalla.
„Áherslur Unnar beinast einkum að því að skilja og rannsaka frá ýmsum sjónarhornum hvernig sálrænt álag og áföll hafa áhrif á heilsu og sjúkdómsþróun. Ritaskrá hennar er mikil að vöxtum og hafa niðurstöðurnar birst í ýmsum virtustu tímritum heims á viðkomandi fræðasviðum. Skráin ber skýrlega með sér að hún hefur náð frábærum árangri í vísindarannsóknum,“ segir m.a. um Unni á heimasíðu Landspítalans.
Unnur Anna státar af doktorsprófi í klínískri faraldsfræði frá Karólínsku stofnuninni en þar starfaði hún áður hún tók við starfi við Háskóla Íslands árið 2007. Hún hefur verið forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, fyrst sem dósent en sem prófessor frá árinu 2012. Undir hennar stjórn hefur nám í lýðheilsuvísindum eflst mjög. Frá árinu 2013 hefur Unnur verið varaforseti Læknadeildar og hún hefur leiðbeint 12 doktorsefnum sem lokið hafa doktorsprófi og er leiðbeinandi sjö annarra sem eru í doktorsnámi.
Verðlaunasjóð í læknisfræði og skyldum greinum stofnuðu Árni Kristinsson og Þórður Harðarson, núverandi heiðursprófessorar við Háskóla Íslands og fyrrverandi yfirlæknar við Landspítala, árið 1986.
Á Vísindum á vordögum voru einnig veittir styrkir samtals að upphæð nærri 70 milljónir króna til vísindamanna við Landspítala og Háskóla Íslands en lesa má um styrktar rannsóknir á heimasíðu Landspítalans.