Alþjóðleg ráðstefna um menntun sjúkraþjálfara
Alþjóðleg ráðstefna um menntun sjúkraþjálfara fer fram á Hótel Sögu 21. – 23. september 2017. Að ráðstefnunni standa Námsbraut í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands og Evrópsk samtök um framhaldsmenntun í sjúkraþjálfun (e. ENPHE - European Network of Physiotherapy in Higher Education).
Yfirskrift ráðstefnunnar er menntun sjúkraþjálfara í breyttu samfélagi. Sérstakir vinnuhópar munu fjalla um og kynna efni í eftirfarandi málaflokkum: Alþjóðavæðing; Aðgengilegra nám; Áskoranir í faginu; Rannsóknir; Verklegt nám.
Ráðstefnan hefst með degi nemenda og vinnuhópa fimmtudaginn 21. september. Formleg dagskrá hefst síðan föstudaginn 22. september. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands flytur opnunarávarp. Dr. Elizabeth Dean, sjúkraþjálfari og prófessor við University of British Columbia í Kanada, mun flytja gestafyrirlestur um hæfniviðmið í grunnmenntun sjúkraþjálfara í tengslum við gagnreynda nálgun til heilsueflingar. Að gestafyrirlestri loknum taka við pallborðsumræður, kynningar vinnuhópa og veggspjaldasýningar.
Á síðari degi ráðstefnunnar flytur dr. Lynn Snyder-Mackler, sjúkraþjálfari og prófessor við University of Delaware í Bandaríkjunum, gestafyrirlestur um mikilvægi rannsókna sem hluta af kennslu í sjúkraþjálfun. Þá taka við pallborðsumræður og svo kynningar vinnuhópa og veggspjaldasýningar.
Skipuleggjendur ráðstefnunnar fyrir hönd Námsbrautar í sjúkraþjálfun eru Björg Guðjónsdóttir, Sólveig Ása Árnadóttir og Þórarinn Sveinsson.