Flutningar á Heilbrigðisvísindasviði
Töluverðir flutningar hafa átt sér stað á Heilbrigðisvísindasviði undanfarna mánuði. Breytingar hafa orðið á staðsetningu fjögurra námsbrauta- og deildarskrifstofa og partur af rannsóknastarfsemi úr Læknadeild hefur verið fluttur á Sturlugötu.
Starfsemi Hjúkrunarfræðideildar hefur verið flutt aftur í Eirberg við Eiríksgötu 34. Endurbætur á húsinu hafa staðið yfir síðan haustið 2016. Deildarskrifstofan og skrifstofur kennara voru fluttar í Ármúla 1 á meðan framkvæmdum stóð og kennsla við deildina fór að mestu fram í öðrum byggingum á háskólasvæðinu. Endurbæturnar á Eirbergi eru nú á lokastigi. Deildarskrifstofan er á 1. hæð hússins, á sama stað og áður.
Skrifstofa Matvæla- og næringarfræðideildar hefur verið flutt í Læknagarð. Deildarskrifstofan var áður til húsa að Eiríksgötu 29 þar sem Rannsóknastofa í næringarfræði og Næringarstofa Landspítala hafa starfsemi sína. Nemendur við Matvæla- og næringarfræðideild fengu einnig nýverið aðstöðu fyrir félagsherbergi á 1. hæð í Læknagarði og kennsla við deildina fer að töluverðu leyti fram í húsinu. Nýja deildarskrifstofan er á 3. hæð í Læknagarði, stofu 310. Þar er einnig fundar- og vinnuaðstaða fyrir kennara.
Starfsemi Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum hefur verið flutt á Sturlugötu 8. Miðstöð í lýðheilsuvísindum var áður til húsa á jarðhæð í Stapa við Hringbraut. Húsnæðið var orðið of lítið en mun rýmra er um starfsemina í nýju húsakynnunum á Sturlugötu. Við flutningana skapaðist tækifæri til þess að flytja skrifstofu Námsbrautar í sjúkraþjálfunar og skrifstofur kennara á jarðhæðina í Stapa.
Hópur vísindamanna úr Læknadeild sem áður hafði aðstöðu í Læknagarði hefur einnig flutt starfsemi sína á Sturlugötu 8. Þar á meðal eru rannsóknahópar undir stjórn Eiríks Steingrímssonar, Guðrúnar Valdimarsdóttur, Jórunnar E. Eyfjörð, Margrétar H. Ögmundsdóttur og Stefán Þ. Sigurðssonar. Ástæða flutninganna er m.a. efling rannsóknasamstarfs við Íslenska erfðagreiningu sem einnig hefur aðsetur að Sturlugötu.