Skip to main content
27. nóvember 2017

Til Indlands á frumkvöðlaráðstefnu

Tilraunaglös

Tveimur íslenskum frumkvöðlum hefur verið boðin þátttaka á hinni virtu nýsköpunarráðstefnu „Global Entrepreneurship Summit“, eða GES, sem fram fer í Hyderbad á Indlandi í vikunni. Það eru þau Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Platome Líftækni og aðjunkt í lífeindafræði við Háskóla Íslands, og Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Kerecis.

Bandaríkin standa árlega fyrir GES-hátíðinni, en í ár er hún samstarfsverkefni Bandaríkjanna og Indlands. Síðustu ár hefur forseti Bandaríkjanna, þá Barack Obama, sótt ráðstefnunan en í ár fer Ivanka Trump, dóttir og ráðgjafi Bandaríkjaforseta, fyrir bandarísku sendinefndinni. Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, sækir ráðstefnuna fyrir Indlands hönd. Búist er við um 1500 þátttakendum frá yfir 140 löndum og hafa allir þátttakendur verið valdir sérstaklega af utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna (U.S. Department of State) og sendiráðum Bandaríkjanna um allan heim. Það var sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi sem tilnefndi Söndru Mjöll og Guðmund til þátttöku. Sérstök áhersla er lögð á þátttöku kvenna í nýsköpun í ár og eru megin orð ráðstefnunnar „Women first, prosperity for al“. Búist er við að helmingur þátttakanda verði konur. 

Til að hljóta þátttökurétt þarf að komast í gegnum strangt valferli þar sem litið er til nýnæmis verkefna og samfélagsáhrifa, en aðeins um 75 verkefni komust í gegn frá Evrópu. Bæði Platome Líftækni og Kerecis þóttu mjög efnileg nýsköpunarfyrirtæki. Platome Líftækni vinnur nýjar næringarlausnir úr blóðflögum sem Blóðbankinn getur ekki notað en nýtast vísindamönnum sem rækta frumur og þróa frumumeðferðir. Þessar lausnir koma í stað dýraafurða sem hafa verið notaðar hingað til og getur flýtt fyrir þróun á frumumeðferðum. Fyrirtækið byggist á þeim rannsóknum sem Sandra Mjöll vann í doktorsnámi sínu við Háskóla Íslands undir leiðsögn Ólafs E. Sigurjónssonar. 

Platome var valið sprotafyrirtæki ársins af Viðskiptablaðinu og vann einnig Rising Star keppnina sem Deloitte hélt fyrr í nóvember. Þá var Sandra Mjöll valin frumkvöðull ársins af heimssamtökum kvenna í nýsköpun í júní síðastliðnum. 

Á ráðstefnunni mun Sandra Mjöll taka þátt í pallborðsumræðum í svokölluðum  Master Class sem ber yfirskriftina „Easy Entrepreneurship: The Entrepreneurs perspective“. Með henni í pallborði verða indverski frumkvöðullinn Ronnie Screwvala sem er í hópi 75 áhrifamesta fólksins á 21. öld samkvæmt tímaritinu Esquire og í 78. sæti á lista tímaritsins Time yfir áhrifamesta fólk í heimi, hin haítísk-bandaríska Christine Souffrant Ntim, raðfrumkvöðull í hinum svokölluðu nýju mörkuðum og á listum Forbes-tímaritsins 30under30 og 40under40, og Srikanth Bolla, sem var fyrsti blindi alþjóðaneminn í MIT-háskólanum í Bandaríkjunum en hann hefur stofnað bæði skóla fyrir börn með fötlun og fyrirtæki sem veitt hefur fjölda fólks með fötlun störf í heimalandinu Indlandi. Hann er líka á lista Forbes 30under30.

Kerecis vinnur einstakar sáragrisjur úr fiskroði og hefur markaðssett vörur sínar í Bandaríkjunum með góðum árangri og hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir starfsemi sína. 

Sandra Mjöll mun deila reynslu sinni af hátíðinni á Instagram síðu sinni: @sandriculous og er áhugasömum bent á að fylgjast með þar.

Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch
Sandra Mjöll er hér ásamt Guðmundi Fertram Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra Kerecis, ásamt Jill Esposito, staðgengli sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi,