Skip to main content
5. desember 2017

Samstarf um sebrafiskarannsóknir

Fulltrúar Háskóla Íslands, Lífvísindaseturs Háskólans og fyrirtækisins 3Z ehf. undirrituðu á dögunum samning um aukið rannsóknasamstarf í lífvísindum með áherslu á rannsóknir tengdar sebrafiskum.

Samninginn undirrituðu þeir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Karl Ægir Karlsson, prófessor við Háskólann í Reykjavík og framkvæmdastjóri 3Z, og Þórarinn Guðjónsson, prófessor og formaður stjórnar Lífvísindaseturs Háskólans. Samningurinn byggist á öðrum samstarfssamningi sem fulltrúar Lífvísindaseturs og Tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík undirrituðu árið 2015.

Hinn nýi samningur kveður m.a. á um samnýtingu á rannsóknartækjum, aðstöðu og sérþekkingu, uppbyggingu aðstöðu og skilgreiningu á sameiginlegum verkefnum sem falla að rannsóknaáherslum vísindamanna þvert á stofnanir. Þá hyggjast aðilar samningsins sækja sameiginlega um styrki í innlenda og erlenda rannsóknasjóði til þess að auka fjármagn til rannsókna á sebrafiskum.

Sebrafiskar henta afar vel til rannsókna á hlutverki og starfsemi gena og má m.a. nota þá til að líkja eftir sjúkdómum manna. Nokkur verkefni eru nú unnin í samstarfi Lífvísindaseturs og 3Z þar sem CRISPR-tæknin er notuð til að útbúa stökkbreytingar í genum sebrafiska sem tengjast sjúkdómum í mönnum. Áhrif stökkbreytinganna á þroskun og starfsemi fiskanna verður skoðuð og þannig ákvarðað hvaða hlutverkum genin gegna.

Aðstaða til sebrafiskarannsókna er nú þegar til staðar við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og þar hefur fyrirtækið 3Z aðstöðu. Við Lífvísindasetur Háskólans er hins vegar góð aðstaða til margvíslegra rannsókna á sviði sameindalíffræði og er unnið að frekari uppbyggingu þar. Nýi samstarfssamningurinn kveður á um gagnkvæman aðgang vísindamanna að aðstöðu, tækjum og tækni sem tengjast sebrafiskatilraunum og öðrum rannsóknum á sebrafiskum hjá báðum aðilum.

Samkvæmt samningnum fjármagna Lífvísindasetur Háskólans og 3Z í sameiningu starf sérfræðings á þessu rannsóknasviði sem hafa mun aðsetur við Lífvísindasetur Háskólans. 

Samningurinn, sem undirritaður var í Háskóla Íslands 28. nóvember, gildir til miðs árs 2019. 

Fulltrúar 3Z ehf., Lífvísindaseturs og Háskóla Íslands við undirritun samningsins.
Þórarinn Guðjónsson, Jón Atli Benediktsson og Karl Ægir Karlsson