Verðlaunaðar fyrir námsárangur í heilsugæsluhjúkrun
Tveir BS-nemar við Hjúkrunarfræðideild hlutu viðurkenningu úr minningarsjóði Guðrúnar Marteinsdóttur fyrir góðan námsárangur í heilsugæsluhjúkrun. Viðurkenningarnar voru veittar á ráðstefnunni „Hjúkrun í fararbroddi“ sem fram fór í Stakkahlíð þann 18. janúar sl.
Viðurkenningarnar hlutu Eyrún Catherine Franzdóttir, nemandi á 4. ári, og Margrét Jóhannsdóttir, nemandi á 3. ári. Guðrún Kristjánsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Hjúkrunarfræðideildar afhenti viðurkenningarnar.
Tæplega þrjú hundruð þátttakendur sóttu ráðstefnuna „Hjúkrun í fararbroddi“ sem skipulögð er af Hjúkrunarfræðideild. Þar var meðal annars fjallað 80 spennandi verkefni í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði og boðið upp á fjölbreyttar vinnustofur. Hér má skoða ágrip allra verkefna sem kynnt voru á ráðstefnunni.
Ráðstefnan var tileinkuð Guðrúnu Marteinsdóttur, fyrrverandi dósent við námsbraut í hjúkrunarfræði og einum af fyrstu fastráðnu kennurum námsbrautarinnar. Guðrún kenndi heilsugæsluhjúkrun og stjórnun og var frumkvöðull meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga á sviði heilsugæslu- og fjölskylduhjúkrunar. Guðrún var í doktorsnámi við Háskólann á Rhode Island, þar sem hún vann að rannsókn um áhugahvöt meðal kvenna til líkamsþjálfunar, þegar hún lést árið 1994.