Byggja upp fyrirtæki á íslensku byggi
Heilsuvara úr poppuðu íslensku byggi mun fást í Hámu áður en langt um líður og heiðurinn að því eiga tveir matvælafræðinemar við Háskóla Íslands. Stofnun fyrirtækis í kringum vöruna er í ferli og nemendurnir stefna með hana á fleiri sölustaði í framtíðinni.
Varan sem um ræðir hefur fengið nafnið Arctic Barley og er hugarfóstur þeirra Brögu Stefaný Mileris og Hildar Guðrúnar Baldursdóttur sem eru langt komnar í meistaranámi í matvælafræði. „Með poppun fær byggið mjög skemmtilega, stökka áferð sem minnir á millistig milli korns og hnetu sem hefur marga notkunarmöguleika en við notum enga olíu eða salt til þess að poppa það,“ útskýrir Braga og bætir við að þær hafi þegar þróað tvær blöndur. „Eina snarlblöndu sem er hugsuð til að grípa með sér milli mála. Hún inniheldur kanil, þurrkuð epli, kókos og kasjúhnetur. Svo erum við með múslíblöndu sem er mjög góð í jógúrt eða jafnvel eintóm en í hana notum við stevia-súkkulaði án viðbætts sykurs, döðlur og kókos.“
Hildur segir þær stöllur einnig vinna að frekari þróun á svokölluðum klösum úr poppaða bygginu þannig að hægt verði að borða það beint úr pokanum. „Við viljum gera þetta án þess að þurfa að nota sykur eða síróp til þess að festa þá saman og því erum við að gera tilraunir með aðrar leiðir til þess og þá alltaf með hollustusjónarmið varanna í huga,“ bætir hún við.
Hugmyndin kviknaði í Háskólanum
Aðeins eru tæp tvö ár síðan hugmyndin að poppaða bygginu kviknaði hjá þeim Brögu og Hildi en það var í námskeiði um vöruþróun í námi þeirra í Háskóla Íslands. „Okkur var falið að finna nýstárlega leið til þess að nýta matvæli sem er illa nýtt á Íslandi. Bygg er ein af fáum korntegundum sem er hægt að rækta hér á landi en hefur að mestu verið notað í dýrafóður hingað til. Með vörunum okkar erum við að auka verðmæti íslensks byggs sem kemur sér vel bæði fyrir neytendur og framleiðendur en þar að auki er bygg mjög næringarríkt korn og margar rannsóknir sýnt fram á heilsubætandi áhrif þess,“ segir Braga.
Hugmyndin fór fljótt á flug hjá þeim Hildi og Brögu því þær voru valdar til þess að taka þátt í Ecotrophelia-keppninni í París haustið 2016 fyrir hönd Íslands, en þar reyna háskólanemar með sér í vistvænni nýsköpun matvæla. „Við fengum styrk frá Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands til að vinna að verkefninu sumarið 2016 og við höfum alla tíð síðan fengið ómetanlegan stuðning þaðan, bæði frá deildinni og leiðbeinendum og kennurum okkar í Háskólanum,“ segir Hildur.
Styrkur frá Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2017 eftir gerði þeim kleift halda áfram með verkið og gera allar helstu mælingar og frekari prófanir á vörunni. „Þar á meðal að meta besta hreinsunarstig byggs, þ.e.a.s. hvaða bygg hentar best í okkar vöru, og finna bestu aðferðina við poppun til að ná fram þeim eiginleikunum sem við sækjumst eftir. Við höfum talað við neytendur og gert neytendakönnun á blöndunum okkar í Fræinu, heilsuvörudeild Fjarðarkaupa, og vörunni hefur verið mjög vel tekið. Við höfum svo verið að vinna þetta frekar síðustu mánuði með stuðningi leiðbeinenda og kennara okkar í Háskólanum en þar fáum við aðgang að mikilli þekkingu og hugmyndum,“ segir Braga. Svo langt er þróunin komin að þær eru að stofna fyrirtæki á grunni hugmyndarinnar sem ber nafn vörunnar, Arctic Barley.
Bygg er ein af fáum korntegundum sem er hægt að rækta hér á landi en hefur að mestu verið notað í dýrafóður hingað til. „Með poppun fær byggið mjög skemmtilega, stökka áferð sem minnir á millistig milli korns og hnetu sem hefur marga notkunarmöguleika en við notum enga olíu eða salt til þess að poppa það,“ segja þær Hildur og Braga.
Markmiðið að auka neyslu byggs á Íslandi
Aðspurðar um helstu kosti vörunnar bendir Hildur á að bygg sé alla jafna flokkað með sem ofurfæða (e. superfood) þar sem það inniheldur mikið magn af prótíni, trefjum og járni auk þess sem það er ríkt af E-vítamíni og inniheldur meðal annars kalk, B1- og B2-vítamín. „Bygg inniheldur einnig meira magn af fjölsykrunni beta-glúkan en flestar aðrar kornvörur en rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla þess hefur jákvæð áhrif á heilsu og getur minnkað líkur á lífstílssjúkdómum eins og sykursýki og hjartasjúkdómum,“ segir Hildur enn fremur.
„Arctic Barley snarl- og múslíblöndurnar eru trefjaríkar og án viðbætts sykurs. Síðan er auðvitað fullt af vítamínum og steinefnum í hinum innihaldsefnunum sem við notum í blöndurnar. Okkur finnst líka mikilvægt að varan okkar sé umhverfisvæn og því notum við einungis umbúðir sem brotna niður í náttúrunni,“ bætir Braga við og undirstrikar að markmiðið með vörunum sé að auka neyslu byggs á Íslandi.
Vöruþróun sem þessi er enginn hægðarleikur en þær stöllur segja þróun poppaða byggsins hafa gengið mjög vel þótt varan hafi breyst töluvert í þróunarferlinu. „Það er gaman að segja frá því að fyrsta blandan sem við gerðum innihélt þara, frostþurrkaðan rabbabara og þurrkuð epli. Svo vorum við lengi að velta fyrir okkur hvort við ættum að nota súkkulaði yfir höfuð í vöruna og hvort það ætti að vera dökkt, sykurlaust eða mjólkursúkkulaði eða kakónibbur í blöndunni, en skoðanir neytenda voru mjög skiptar um það,“ segir Hildur.
Hefja markaðssóknina í Hámu
Það er við hæfi að fyrsti sölustaður millimálsblandanna verði Háma á Háskólatorgi enda kviknaði hugmyndin í frjóu umhverfi Háskólans. „Ef viðtökurnar verða góðar þá er markmiðið að koma blöndunum í sölu á fleiri stöðum, í heilsubúðum og heilsuhornum matvöruverslana. Síðan erum við að skoða mögulegt samstarf við stærri og rótgrónari fyrirtæki,“ segir Braga um framtíðarplönin og Hildur bætir við að möguleikar á vinnslu byggs hér á landi séu miklir. „Við höfum verið að kynna vöruna okkar til fyrirtækja sem hafa sýnt þessu mikinn áhuga og það kæmi ekki á óvart ef þetta myndi smita út frá sér og fleiri tækju upp á því að nota poppað bygg í vörurnar sínar enda heilsusamlegt, íslenskt hráefni.“