Skip to main content
19. desember 2018

Makríll hollur matfiskur með mikla möguleika á markaði

Tekist hefur að auka verðmæti makríls með nýjum aðferðum sem auka geymsluþol fisksins til muna í rannsóknarsamstarfi Háskóla Íslands, Matís og sjávarútvegsfyrirtækja.

Meðal þeirra sem taka þátt í rannsókninni er doktorsneminn Hildur Inga Sveinsdóttir sem rannsakar verðmætasköpun íslenskra makrílflaka. Markmið rannsóknarinnar er að leita leiða til að lengja geymsluþol fisksins eftir að hann hefur verið flakaður, gera flökun á makríl sem veiddur er við Íslandsstrendur að raunhæfum kosti og að þróa aðferðir til að vinna fiskinn enn frekar sem eykur nýtingu og verðmæti hans á markaði.

Nú þegar hefur tekist að þróa aðferð sem skilar lengdu geymsluþol fisksins úr tæpum sex mánuðum í að minnsta kosti tólf mánuði eftir flökun. Hildur segir mikilvægt að varan hafi nægilega langt geymsluþol til að hægt sé að selja afurðina allan ársins hring. Þessa dagana skoðar Hildur mögulega nýtingu náttúrulegra aukaefna við vinnslu fisksins og möguleika framleiðslu á roðlausum makrílflökum.

Makríll

Makrílafli var fyrst skráður við Íslandsstrendur árið 2005 en þá höfðu Íslendingar litla þekkingu á hvernig hægt væri að nýta afurðina, ekki síst vegna þess að aðrar þjóðir sem veiða makríl hafa forðast að nýta hann á þeim tíma sem hann veiðist hér.

Leiðbeinendur Hildar eru Sigurjón Arason og María Guðjónsdóttir, prófessorar við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, ásamt Magneu Karlsdóttur sem vinnur við rannsóknir og nýsköpun hjá Matís. Verkefnið er unnið í samstarfi við Síldarvinnsluna og Ísfélag Vestmannaeyja og Rannís og AVS styrkja verkefnið. 

„Ég ákvað að rannsaka makríl vegna þess að hann er tiltölulega nýtt viðfangsefni í matvælaiðnaði á Íslandi og ég sá fram á áhugaverð tækifæri í þróun á vinnslu afurðarinnar sem gæti orðið til mikillar virðisaukningar, bæði fjárhagslega og í ljósi umhverfissjónarmiða,“ segir Hildur.

Makrílafli var fyrst skráður við Íslandsstrendur árið 2005 en þá höfðu Íslendingar litla þekkingu á hvernig hægt væri að nýta afurðina, ekki síst vegna þess að aðrar þjóðir sem veiða makríl hafa forðast að nýta hann á þeim tíma sem hann veiðist hér. „Þekking á nýtingu fisksins hefur aukist til muna á þeim tíma í mikilli samvinnu íslensks fiskiðnaðar og rannsóknarstofnana. Það sést best á því að árið 2009 var 80% þess makríls sem veiddist  nýtt í fiskimjöl og olíuvinnslu en árið 2013 hafði þetta snúist við og þá var 95% aflans fryst og nýtt til manneldis,“ segir Hildur. 

Að sögn Hildar er stærsti hluti fisksins sem veiðist nú frystur og seldur úr landi óflakaður. „Það er markaður fyrir makrílflök í heiminum en aðeins 1% af þeim flökum sem eru á markaði eru flökuð í vél. Restin er heill fiskur sem er fluttur milli landa, þíddur og handflakaður í útlöndum.“  Hildur skoðar því tækifæri tengd því að flaka makrílinn sem hér veiðist í vélum. „Þá geta opnast dyr inn á nýja markaði með afurðina og þetta gerir íslenskum fiskvinnslum líka kleift að nýta hliðarhráefni í aðra virðisaukandi vinnslu,“ segir Hildur. 

Aðspurð segir Hildur makrílinn hollan matfisk með hátt hlutfall omega-3 fitusýra og því góðan kost fyrir neytendur. Hún hefur trú á því að makríll geti orðið vinsælli á komandi árum hérlendis og fagnar þeirri vitundarvakningu sem hefur orðið um nýtingu á matvælum. „Grundvallarhugsunin við nýtingu auðlinda sjávar á að miða að því að veiða eins fáa fiska og mögulegt er til að uppfylla okkar þarfir. Ef auðlindir eru nýttar á að gera það á réttan hátt og nýta afurðina eins og best verður á kosið,“ segir Hildur.

Höfundur greinar: Gígja Hilmarsdóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.

Hildur Inga Sveinsdóttir