Skip to main content
20. janúar 2019

Geta gen spáð fyrir um geðraskanir hjá börnum og unglingum?

""

„Ég hef brennandi áhuga á því að kafa dýpra í líffræðilega, og sér í lagi erfðafræðilega, þætti sem koma að geðröskunum með það að leiðarljósi að betrumbæta forvarnir og úrræði fyrir einstaklinga,“ segir Þórhildur Halldórsdóttir, nýdoktor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Hún hlaut verðlaun mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem veitt eru efnilegum vísindamanni, á ráðstefnu í líf- og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands á dögunum. Þórhildur, sem er nýkomin til starfa við Háskólann, vinnur nú að hinu mikilvæga rannsóknarverkefni Áfallasaga kvenna.

Verðlaunin fékk Þórhildur fyrir rannsóknarverkefnið „Polygenic Risk: Predicting Depressive Symptoms in Clinical and Epidemiological Cohorts of Youth“. „Í stuttu máli snerist rannsóknin um að athuga hvort gen sem hafa verið bendluð við þunglyndi hjá fullorðnum geti gagnast til að spá fyrir um greiningu á þunglyndi og þunglyndiseinkenni hjá börnum og unglingum,“ segir Þórhildur.

Þórhildur státar af doktorprófi frá Virgina Tech háskólanum í Bandaríkjunum og segist sem klínískur barnasálfræðingur lengi hafa haft áhuga á bæði meðferð og forvörnum við geðröskunum hjá börnum og unglingum. „Ég vildi hins vegar læra meira um erfðafræðilega þætti sem stuðla að geðröskunum til þess einmitt að þróa meðferðir og forvarnir sem virka enn betur en þær sem við nú þegar höfum. Á síðastliðnum áratug hefur verið mikil gróska í erfðafræðilegum rannsóknum á geðröskunum en tiltölulega fáar þeirra snúa að börnum og unglingum,“ segir hún um kveikjuna að rannsókninni.

Umfangsmikil alþjóðleg rannsókn

Rannsóknina vann hún meðan hún starfaði sem nýdoktor við Max Planck stofnunina í geðlækningum í Þýskalandi sem er leiðandi í rannsóknum á líffræðilegum og erfðafræðilegum áhrifum á geðraskanir. „Þetta er viðamikil rannsókn sem felur í sér samstarf margra stofnana í bæði Evrópu og Bandaríkjunum. Þátttakendur voru þýsk börn og unglingar sem voru greind með þunglyndi annars vegar og svo samanburðarhópur sem höfðu enga sögu um geðraskanir hins vegar. Jafnframt vorum við stórt úrtak af portúgölskum unglingum sem var fylgt eftir í tvö ár. Sá hópur er hluti af stórri rannsókn þar sem árangur forvarnaverkefnisins Hugur og heilsa er kannaður en verkefnið þróuðu þeir Eiríkur Örn Arnarson, prófessor í sálfræði við Læknadeild Háskóla Íslands, og Edward Craighead, prófessor við Emory-háskóla í Bandaríkjunum. Við vildum kanna hvort tiltekinn erfðafræðilegur áhættuþáttur gæti spáð fyrir um hverjir væru líklegri en aðrir til að þróa með sér alvarleg þunglyndiseinkenni,“ segir hún og bætir við að tíðni alvarlegra þunglyndiseinkenna snarhækki á unglingsárum.

„Okkur langaði einnig að athuga forspárgildi erfðafræðilega áhættuþáttarins í yngra úrtaki og í því tilviki leituðum við til stórs hóps foreldra finnskra barna sem svöruðu spurningalistum um þunglyndiseinkenni þegar börnin voru 8 og 11 ára,“ segir Þórhildur. Auk þess fékk rannsóknarhópurinn erfðaefni frá öllum þátttakendum. „Án þeirrar miklu vinnu sem samstarfsaðilar mínir lögðu á sig við gagnasöfnun hefði þessi langtímarannsókn ekki orðið að veruleika,“ segir Þórhildur enn fremur.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að umræddur erfðafræðilegur áhættuþáttur spáir fyrir um bæði þunglyndi og þunglyndiseinkenni hjá börnum og unglingum, bæði hjá þeim þátttakendum í rannsókninni sem glímdu við þunglyndi og aukinni hættu á þunglyndi hjá börnum og unglingum sem ekki ná greiningarskilmerkjum fyrir geðröskunni. „Rannsóknin undirstrikar mikilvægi erfða í þróun geðraskana. Það er þó mikilvægt að benda á að forspárgildi tiltekinna gena er langt frá því að vera fullkomið og útskýrir aðeins brot af því hverjir eru líklegir til með að þróa með sér þunglyndi,“ bendir Þórhildur á.

Rannsakar áfallasögu kvenna

Sem fyrr segir kom Þórhildur til starfa við Háskóla Íslands á liðnu ári eftir hafa starfað bæði sem vísindamaður í Bandaríkjunum og Þýskalandi. Hún segist aðspurð áfram ætla að leggja áherslu á hlut erfðafræðilegra þátta í geðröskunum í rannsóknum sínum. „Núna er ég á kafi í að rannsaka hvernig samspil umhverfis og erfða getur leitt til geðraskana. Það sem er svo merkilegt er að flestir lenda í einhverjum hremmingum eða áföllum einhvern tímann á lífsleiðinni en einungis hluti af þessum einstaklingum þróar með sér geðræna kvilla. Þá er stóra spurningin: Hvað er það sem veldur því að einn þróar með sér geðræn einkenni en ekki annar? Þetta er ein af stóru spurningunum í rannsókninni Áfallasaga kvenna sem er nú í fullum gangi hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum. Ég vil eindregið hvetja allar íslenskar konur, 18 ára og eldri, til leggja sitt af mörkum og taka þátt í rannsókninni,“ segir Þórhildur að endingu.

Þórhildur Halldórsdóttir og Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands