HÍ og Matís efla samstarf um rannsóknir, nýsköpun og kennslu
Efla á enn frekar fræðilega og verklega menntun háskólanema á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis með nánu samstarfi á sviði rannsókna og nýsköpunar á milli Háskóla Íslands og Matís. Samstarfssamningur þar að lútandi var undirritaður í Háskóla Íslands fyrr í vikunni.
Samningurinn tekur við af eldri samstarfssamningi stofnananna og í honum er lögð sérstök áhersla á samstarf um rannsóknir og nýsköpun, m.a. í tengslum við rannsókna- og þróunarverkefni meistara- og doktorsnema sem unnin verða undir leiðsögn starfsmanna Matís og undir umsjón kennara háskólans. Samningurinn kveður einnig á um samstarf er lýtur að margvíslegum innviðum, svo sem rannsóknatækjum og búnaði.
Stofnanirnar tvær hafa átt í afar góðu samstarfi undanfarin ár, m.a. með ráðningu sameiginlegra starfsmanna. Þá hefur fjöldi doktors- og meistaranema lokið námi undir sameiginlegri handleiðslu starfsmanna HÍ og Matís, oftar en ekki í samstarfi við í fyrirtæki á Íslandi. Nemendur hafa að jafnaði haft starfsaðstöðu hjá Matís og sama má segja um sameiginlega starfsmenn.
Í hinum nýja samningi er haldið áfram á sömu braut en markmið hans er m.a. að auka enn frekar rannsóknir á sviði matvælafræði, matvælaverkfræði, matvælaöryggis, fæðuöryggis, erfða- og líftækni og örverufræði og vera jafnframt í fararbroddi í nýsköpun á þessum fræðasviðum. Þá ætla stofnanirnar að vinna saman að því að vera leiðandi á völdum sérfræðisviðum í því skyni að laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi ásamt því að fjölga sameiginlegum rannsóknarverkefnum til að efla bæði framhaldsnám og atvinnulíf. Jafnframt verður leitast við að tengja starfsemi Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands og starfsstöðva Matís utan Reykjavíkur eftir því sem við á.
Sérstök samstarfsnefnd skipuð tveimur fulltrúum frá hvorri stofnun hefur umsjón með samningnum en jafnframt verða skipaðar starfsnefndir um einstaka þætti samstarfsins eins og rannsóknir, nýsköpun og þróun og kennslu og leiðbeiningu innan þeirra fræðasviða sem samningurinn tekur til.
Samninginn nýja undirrituðu Oddur Már Gunnarsson, starfandi forstjóri Matís, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í Háskóla Íslands að viðstöddum fulltrúum beggja stofnana.