Árangur lokuskiptaaðgerða á Íslandi er ekki síðri hjá konum en körlum
Þrátt fyrir að konur hafi reynst vera með alvarlegri þrengsl í ósæðarloku hjartans en karlar er árangur af lokuskiptaaðgerðum mjög svipaður hjá báðum kynjum og langtímalífslíkur að lokinni aðgerð sömuleiðis. Þetta sýnir ný rannsókn vísindamanna og nemenda við Háskóla Íslands en greint er frá henni í nýjasta hefti Læknablaðsins.
Þrenging í ósæðarloku er næstalgengasti hjartasjúkdómurinn sem meðhöndlaður er með opinni skurðagerð á eftir kransæðaþrengslum. Hann greinist yfirleitt eftir miðjan aldur og felst hefðbundin meðferð oftast í að skipta út lokunni fyrir lífræna gerviloku úr svíni eða kálfi. Hjá yngra fólki er þó oft notast við ólífræna loku úr hertu kolefni. Þetta er umfangmikil skurðaðgerð þar sem sjúklingurinn er tengdur við hjarta- og lungnavél og hjartað síðan stöðvað í 1-2 klst.
Almennt er árangur opinna hjartaaðgerða heldur lakari hjá konum en körlum, m.a. vegna þess að þær eru eldri þegar kemur að aðgerð. Í rannsókninni sem um ræðir var í fyrsta sinn kannað hver árangur ósæðalokuskiptaaðgerða er hjá konum hérlendis og hann borinn saman við árangur af sams konar aðgerðum hjá körlum.
Rannsóknin náði til 428 sjúklinga sem gengust undir ósæðarlokuskipti á Landspítala 2002-2013. Konur voru 35% sjúklinga og meðalaldur þeirra 72 ár en hann var 70 ár hjá körlum. Alvarleiki lokuþrengsla var metinn með hjartaómskoðunum og skráðir fylgikvillar á fyrstu 30 dögunum eftir aðgerð. Auk þess var kannað hversu margir sjúklingar lifðu fyrstu 30 dagana eftir aðgerð og hversu margir væru á lífi fimm árum síðar.
Almennt er árangur opinna hjartaaðgerða heldur lakari hjá konum en körlum, m.a. vegna þess að þær eru eldri þegar kemur að aðgerð. Í rannsókninni sem um ræðir var í fyrsta sinn kannað hver árangur ósæðalokuskiptaaðgerða er hjá konum hérlendis og hann borinn saman við árangur af sams konar aðgerðum hjá körlum. Frá ósæðarlokuskiptum á Landspítala. MYND/Ragnar Th. Sigurðsson
Í ljós kom að lokuþrengsl þeirra kvenna sem tóku þátt í aðgerðinni voru almennt alvarlegri en karlanna. Engu að síður var árangur af aðgerðunum svipaður hjá báðum kynjum og átti það bæði við um snemmkomna fylgikvilla og 30 daga dánartíðni. Einnig reyndist langtímalifun kvenna sambærileg og hjá körlum en í kringum 80% sjúklinga voru á lífi fimm árum eftir aðgerð sem þykir ágætur árangur fyrir sjúklinga á þessum aldri.
Það að konur séu aðeins þriðjungur sjúklinga og að meðalaldur þeirra við greiningu á alvarlegum lokuþrengslum sé tveimur árum hærri en hjá körlum vekur upp spurningar hvort töf verði á greiningu sjúkdómsins hjá konum og þeim síður boðið upp á lokuskiptaaðgerð. Rannsóknir erlendis hafa leitt í ljós svipaðar niðurstöður, bæði fyrir lokuskipta- og kransæðahjáveituaðgerðir, og skýringin oftast talin liggja í ódæmigerðari einkennum kvenna sem geti tafið greiningu og meðferð.
Á síðustu árum hefur ný aðgerð við ósæðarlokuþrengslum verið að ryðja sér til rúms, m.a. hér á landi. Kallast hún TAVI-aðgerð en þá er lífrænni ósæðarloku komið fyrir í gegnum slagæð í nára. Sleppur sjúklingurinn þá við bringubeinsskurð og getur oftast útskrifast nokkrum dögum eftir aðgerð í stað 7-10 daga eftir opna aðgerð. Þessi nýja aðgerð hentar því vel öldruðum og öðrum einstaklingum þar sem áhætta við opna hjartaaðgerð er talin mjög mikil.