421 skráður í inntökupróf í Læknadeild
Áhugi á að þreyta inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun við Læknadeild Háskóla Íslands eykst á milli ára en alls er 421 nemandi skráður í prófið sem fram fer dagana 6. og 7. júní næstkomandi. Í fyrra þreyttu 348 manns prófið.
Alls munu 323 þreyta inntökupróf í læknisfræði og fjölgar þeim um 40 milli ára. Þá sækja 98 manns um inntöku í sjúkraþjálfun en þeir voru 64 í fyrra. Sama próf er lagt fyrir alla þátttakendur og þeir sem standa sig best á prófinu eiga kost á að hefja nám.
Fjöldi þeirra sem hefur nám miðast við afkastagetu sjúkrahúsanna við verklega þjálfun nemenda. Í læknisfræði verða nú teknir inn 54 nemendur, sem er fjölgun um fjögur pláss frá því í fyrra, og í sjúkraþjálfun er fjöldinn sá sami og í fyrra, eða 35 nemendur.
Læknadeild Háskóla Íslands stendur fyrir prófinu og verður prófað í húsnæði Menntaskólans við Hamrahlíð. Inntökuprófið tekur tvo daga og samanstendur af fjórum tveggja tíma próflotum og Aðgangsprófi fyrir háskólastig (A-prófi) sem tekur 3,5 klst. A-prófið gildir 30% af inntökuprófinu.
Þess má geta að þeir sem fara í prófið en komast ekki inn í Læknadeild geta skráð sig í aðrar deildir Háskóla Íslands fram til 20. júlí.