Vísindatímarit ESB fjallar um áfallarannsóknir við HÍ
Fjallað er ítarlega um rannsóknir vísindamanna Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands á tengslum erfða og áfalla í nýjasta hefti Horizon, tímarits Evrópusambandsins á sviði vísinda og nýsköpunar. Vonir standa til að rannsóknirnar skili nýjum úrræðum sem hjálpi til við að draga úr áhrifum áfalla á heilsu fólks.
Rætt er ítarlega við Unni Önnu Valdimarsdóttur, prófessor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og forsprakka rannsóknarinanr, í greininni. Hún fer fyrir stórum vísindahópi sem fékk árið 2017 tveggja milljóna evra styrk, jafnvirði yfir 250 milljóna króna, frá Evrópska rannsóknaráðinu (European Research Council) til rannsókna á erfðum heilsufars í kjölfar streituvaldandi atburða. Markmiðið er að varpa skýrara ljósi á það af hverju sumir einstaklingar missa heilsu í kjölfar áfalla á meðan aðrir þolendur sambærilegra áfalla gera það ekki.
Rannsóknir sýna að það að lenda í áföllum eykur líkur á að fólk þrói með sér áfallastreituröskun, þunglyndi og kvíða. Unnur og samstarfsfólk hennar hafa lengi unnið að rannsóknum á áhrifum áfalla á þróun heislufars og m.a. leitt líkum að því að áföll hafi ekki einungis áhrif á andlega heilsu einnig líkamlega. Þannig aukist líkur á hjartasjúkdómum, sýkingum og sjálfsofnæmi í kjölfar mikilla streituvaldandi atburða. Rannsóknir þeirra hafa t.d. einnig leitt í ljós að karlar og konur sem nýlega hafa greinst með krabbamein séu í verulega aukinni hættu á sjálfsvígi og skyndilegu andláti vegna hjarta- og æðasjúkdóma.
Flest okkar lenda í áföllum einhvern tíma á lífsleiðinni. „Þriðjungur kvenna verður fyrir annaðhvort líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni. Flest okkar upplifa það enn fremur að við eða einhver í fjölskyldu okkar greinist með lífshættulegan sjúkdóm og þetta eru sannarlega streituvaldandi viðburðir,“ bendir Unnur á í samtali við Horizon.
Áfallasaga kvenna er vísindarannsókn á vegum Háskóla Íslands. Markmið rannsóknarinnar er fyrst of fremst að auka þekkingu á tíðni áfalla og áhrifum þeirra á heilsufar kvenna. Rannsóknin er ein stærsta vísindarannsókn á heimsvísu á þessu sviði. Væntingar standa til þess að niðurstöður rannsóknarinnar verði síðar hægt að nota til forvarna og meðferðar við alvarlegum heilsufarsáhrifum áfalla.
Áfallsaga kvenna einstök á heimsvísu
Í fréttinni er fjallað sérstaklega um hina viðamiklu rannsókn Unnar og samstarfsfólks, Áfallasaga kvenna, sem fjármögnuð er með styrk Evrópska rannsóknaráðsins. Um er að ræða samvinnuverkefni Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar þar sem markmiðið er að varpa ljósi á heilsufar kvenna í kjölfar áfalla. Yfir þrjátíu þúsund konur tóku þátt í rannsókninni. Hún hefur m.a. leitt í ljós að þriðjungur kvenna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi í starfi og að ríflega fimmtungur þátttakenda er með sterk einkenni um áfallastreituröskun en vísbendingar eru um að slík einkenni geti haft í för með sér langvarandi heilsubrest. Rannsókn vísindahópsins er einstök á heimsvísu og undirstrikar þann einstaka íslenska efnivið og gagnagrunna sem Íslendingar eiga til vísindarannsókna á heilbrigðissviði.
Auk gagna úr Áfallasögu kvenna nýta Unnur og samstarfsfólk gögn um heilsu sænskra þegna, sem upplifðu hörmungar í tengslum við flóðbylgjuna miklu í Suðaustur-Asíu árið 2004. „Það sem er áhugavert við niðurstöðurnar er að áföll hafa mjög ólík áhrif á heilsu fólks,“ segir Unnur m.a. í samtali við Horizon.
Bent er á að ólíklegt megi telja að eitt tiltekið gen ráði því hvernig fólk bregst við áföllum og streituvaldandi viðburðum. Hins vegar geti erfðafræðin varpað nýju ljósi á hvaða líffræðilegu ferlar ráði því að slíkir viðburðir hafi meiri áhrif á heilsu sumra en annarra.
Vonir vísindahóps Unnar standa til að niðurstöður rannsóknanna nýtist heilbrigðisstarfsfólki til að hjálpa þeim sem lent hafa í áföllum, hugsanlega með nýjum forvarna- og meðferðarúrræðum „Við finnum hugsanlega leiðir sem gera fólki kleift að takast betur á við þessar þungbæru aðstæður og getum þannig minnkað áhættuna á þróun sjúkdóma í kjölfarið. Hugsanlega verður hægt að upplýsa fólk um áhættu þess á heilsubresti í kjölfar áfalla og þá mögulega fylgjast betur með þeim hópi sem er líklegur til að missa heilsu við slíkar aðstæður,“ segir Unnur.