Álagsmeiðsl leikmanna í handbolta
Eitt af þeim 37 doktorsverkefnum sem fengu styrk úr Doktorsstyrktarsjóði Háskóla Íslands um miðjan maí 2022 fjallar um axlarmeiðsl meðal handboltafólks en algengi slíkra meiðsla er umtalsvert. Nálgun íslensku rannsóknarinnar á vandamálið kemur hins vegar úr nýrri átt og gæti því valdið straumhvörfum þegar kemur að meiðslaforvörnum hjá leikmönnum í handbolta.
„Orkuleki“ í hreyfikeðjunni bitnar á öxlinni
Tilgangur doktorsverkefnisins er að kanna möguleg tengsl á milli styrks og kraftmyndunar í neðri útlimum og bol, og álagsmeiðsla í öxl á meðal handboltaleikmanna. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á undanförnum árum sem hafa kannað áhættuþætti fyrir þróun þessara meiðsla. Hins vegar hafa þær rannsóknir aðallega lagt áherslu á að kanna mögulega áhættuþætti tengda öxlinni sjálfri, líkt og hreyfigetu og styrk í axlarvöðvum. Kasthreyfingin í handbolta, líkt í öllum öðrum kastíþróttum, er hins vegar flókin samsett hreyfing en allt að 50-60% af heildarkraftinum í kasthreyfingunni kemur frá vöðvum í neðri útlimum og bolvöðvum. Því má leiða líkur að því að mikilvægt sé að hafa sterka fætur og bolvöðva (kviður og neðri bakvöðvar) til þess að stuðla að því að kasthreyfingin verði sem hagkvæmust. Sömuleiðis má leiða líkur að því að ef það er einhvers staðar „orkuleki“ í hreyfikeðjunni þurfi öxlin að bæta upp fyrir það með tilheyrandi auknu álagi.
Rannsakendur stefna að því að fá allt að 50 leikmenn úr efstu deild karla í handbolta til þess að taka þátt í rannsókninni. Í upphafi keppnistímabilsins 2022-23 mæta þátttakendur í mælingar þar sem hámarsksstyrkur í neðri útlimum verður mældur ásamt hámarks aflmyndun í bolvöðvum og hámarksstyrk í kastöxlinni. Síðan verður gerð þrívíddarhreyfigreing á uppstökksskoti þar sem skoðað verður hvernig leikmenn beita líkamanum í heild við kasthreyfinguna. Þátttakendum verður síðan fylgt eftir í gegnum allt keppnistímabilið þar sem þeir svara vikulega sérstökum álagsmeiðsla spurningalista sem kannar umfang og alvarleika álagsmeiðsla í öxl.
Fyrsta rannsókn sinnar tegundar
Möguleg tengsl á milli niðurstaðna úr mælingununum og heildarskors spurningalistans verða síðan metin. Aðalrannsóknartilgátan er sú að þeir leikmenn sem eru veikari í vöðvum neðri útlima og bols og beita líkamanum ekki á sem hagkvæmasta máta við kasthreyfinguna séu líklegri til þess að glíma við álagsmeiðsli í öxl þegar þeim er fylgt eftir í gegnum heilt keppnistímabil. Eftir því sem næst verður komist hefur engin álíka rannsókn verið gerð áður þar sem þessi tengsl eru skoðuð og því verður mjög spennandi að sjá hvort rannsakendur ná að sýna fram á mikilvægi þess að hugsa heildrænt þegar kemur að meiðslaforvörnum hjá handboltaleikmönnum.
Kári Árnason sjúkraþjálfari er doktorsneminn í þessu áhugaverða verkefni en leiðbeinandi hans er Kristín Briem, prófessor við námsbraut í sjúkraþjálfun við Læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs HÍ.