Skip to main content
1. nóvember 2022

Femínismi í Ritinu

Femínismi í Ritinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komið Ritið:2/2022, tímarit Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þema Ritsins er að þessu sinni helgað rannsóknum á femínisma en undir hatti þess birtast sjö greinar, allar eftir fræðikonur.

Síðustu þrjár bylgjur femínismans eru í brennidepli þótt sjónarhorn og áherslur höfunda séu gagnólík. Ásdís Helga Óskarsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir beina sjónum að íslenskum samtímabókmenntum, Ásdís Helga fjallar um aðdraganda fjórðu bylgju femínismans í íslensku samfélagi og bókmenntir ungra, íslenskra kvenna sem innlegg í baráttuna á meðan að Guðrún skrifar um leiksöguna Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur. Kynfrelsi og klámvæðing í pósfemínískri umræðu er viðfangsefni Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur. Hún leitast meðal annars við að draga fram hvernig póstfemínisminn er hluti af þriðju bylgju femínisma og hvernig hann sem slíkur hefur áhrif á fjórðu bylgjuna þrátt fyrir að hugmyndaheimur hans geti hljómað annarlega í ljósi aðgerðarstefnu Metoo-bylgjunnar. Arnfríður Guðmundsdóttir lítur aftur á móti til upphafsára femínískrar guðfræði og ræðir um helstu áherslur femínískrar nálgunar innan guðfræðinnar og þá gagnrýni sem frumkvöðlar hennar settu fram á hefðbundna guðfræðiumræðu. Þá fjallar Unnur Birna Karlsdóttir um nokkur meginatriði í hugmyndafræði vistfemínisma og hvernig þessarar stefnu hefur gætt hérlendis í umræðu um jafnréttismál og umhverfisvernd. Hólmfríður Garðarsdóttir skrifar hins vegar um þær aðstæður sem biðu kvenna í kjölfar hernáms Evrópumanna á Rómönsku-Ameríku. Síðast en ekki síst ræðir Helga Kress andstöðu karllægrar bókmenntastofnunar við femínískar bókmenntarannsóknir við upphaf þeirra hérlendis, í hvaða myndum hún birtist og helstu einkenni á orðræðu hennar.

Að þessu sinni er ein þýðing í heftinu sem fellur utan þema. Það er greinin „Staða þýddra bókmennta innan fjölkerfis bókmenntanna“ eftir Itamar Even-Zohar sem birtist hér í þýðingu Jóns Karls Helgasonar. 

Ritstjórar heftisins eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Dagbjört Guðmundsdóttir um prófarkalestur. Málverkið á kápu Ritsins er eftir Ragnheiði Jónsdóttur og nefnist Deluxe and Delightful.

Ritið er gefið út í opnum aðgangi á ritid.hi.is.

Ritið:2/2022