Enska ekki lengur meðhöndluð sem erlent tungumál í skólastofum
„Rannsóknin snýr að þeim textategundum sem eru ritaðar á efri stigum grunnskóla, í framhaldsskóla og háskóla og þeirri tilfærslu frá því að nota ensku sem erlent mál í að nota ensku sem kennslumál,“ segir Súsanna Björg Vilhjálmsdóttir, doktorsnemi í ensku, en hún fékk úthlutuðum styrk frá Rannís til þess að vinna rannsókn um ritun á grunn-, framhalds- og háskólastigi.
Rannsókn Súsönnu er megindleg rannsókn sem felst í því að spurningalistar voru sendir út rafrænt og lagðir fyrir nemendur á efra stigi grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Súsanna tók eftir því við vinnslu rannsóknarinnar að enska er ekki bara notuð í enskukennslu á efri stigum grunnskóla heldur einnig í öðrum námsgreinum. Þegar nemendur fara í framhaldsskóla eykst notkun ensku sem kennslumáls, ekki þó endilega í kennslustundum heldur í lesefni og við textaskrif.
Enska í námsefni áberandi meðal félagsfræðikennara
Fyrstu grein rannsóknarinnar er að ljúka en hún snýr að notkun ensku sem kennslumáls á grunn- og framhaldsskólastigi. Enskunotkun við kennslu hefur aukist verulega og er sérlega áberandi á meðal félagsfræðikennara í framhaldsskólum að sögn Súsönnu, þeir leggi námsefni fram á ensku fyrir nemendur sína. Rannsóknin hafi sýnt fram á að enska sé ekki lengur meðhöndluð sem erlent tungumál og sé ekki lengur notuð sem slíkt heldur er hún orðin fastmótuð í kennslustarfi og starfsháttum kennara. Enska sé því orðin kennslumál.
Aðspurð um þýðingu rannsóknarinnar segir Súsanna að nauðsynlegt sé að skoða hvernig framvinda verður í ritun texta frá efri stigum grunnskóla og upp í háskóla, kennslumálið sem verið er að nota og starfshætti kennara. Með því að hafa yfirsýn yfir þessa þætti megi gera nemendum auðveldara að fara úr því að nota ensku sem annað mál yfir í kennslumál.
Rannsóknin álitin löngu tímabær
Súsanna á að baki forvitnilega sögu sem tengist viðfangsefni rannsóknarinnar. Hún flutti 12 ára gömul frá Bandaríkjunum til Íslands og var þá að eigin sögn með orðaforða í íslensku á við þriggja ára barn. Hún lærði íslensku í gegnum tal en segist ekki hafa verið vel skrifandi á íslensku. Hún upplifði sig því lengi sem útlending í eigin heimalandi.
Það breyttist þegar Súsanna var 28 ára gömul, en þá tók hún við hlutverki formanns Félags hársnyrtisveina og þurfti þá meðal annars að skrifa lögfræðibréf og lesa kjarasamninga. Það reyndist henni erfitt en íslenskukunnáttan kom fyrir rest. „Ég skil því þá nemendur sem reyta hár sitt yfir þessu mjög vel,“ segir Súsanna. Hún bendir jafnframt á að á þeim tíma sem hún var að læra íslensku hafi verið fá úrræði í boði fyrir fólk í hennar stöðu. Nú séu breyttir tímar og mörg úrræði aðgengileg, sem Súsanna fagnar.
Súsanna segist upphaflega hafa viljað læra ensku á háskólastigi en fjölskylda hennar hvatti hana til að feta í fótspor móður sinnar og ömmu og fara í hársnyrtinám. Eftir að hafa starfað sem formaður Félags hársnyrtisveina í 13 ár ákvað Súsanna að láta drauminn um að læra ensku rætast. „Ég saknaði enskunnar vegna þess að enska er og verður alltaf hluti af sjálfsmynd minni, líkt og íslenskan í dag,“ segir Súsanna. Ritun á ensku og íslensku er henni því mikið hjartans mál.
Súsanna segir enn fremur að þetta viðfangsefni hafi orðið fyrir valinu þar sem fáir hafi sýnt því áhuga hingað til. Hún segir kennara á öllum skólastigum fagnað rannsókninni. „Loksins fór einhver að skoða þetta málefni, heyri ég oft,“ segir Súsanna enn fremur.
Leiðbeinandi Súsönnu er Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor emerita við Mála- og menningardeild.
Höfundur greinar: Andrea Gunnarsdóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku.