Lífshættulegt rótleysi branduglunnar
„Fljúgðu langt, fjölgaðu þér hratt, lifðu stutt!“
Þótt þetta gæti í eyrum einhverra hljómað í takt við lífsstíl allra hörðustu rokkara á sjöunda áratugnum þá hefur reyndar splunkuný rannsókn vísindamanna í fuglafræði sýnt fram á að líf branduglunnar er eitthvað í þessa veruna. Niðurstöðurnar, sem birtar voru fyrir örfáum dögum í vísindatímaritinu Ibis, sýna fram á mjög óvænt far branduglunnar í Evrópu og Norður-Afríku og undirstrika brýna nauðsyn þess að skipuleggja samræmdar aðgerðir til verndar þessari dularfullu tegund á miklu víðtækari hátt en áður var talið.
Dularfullt rótleysi branduglunnar
Skort hefur upplýsingar um lífshætti branduglunnar, sem verpir hér á landi eins og eyrugla, en flökt branduglunnar til og frá landssvæðum, þar sem hún birtist og hverfur alveg, hefur heillað bæði fræðimenn og fuglaáhugafólk um langa hríð. Rótleysið hefur líka vakið upp spurningar sem hefur reynst flókið að svara. Þetta óskýrða far hefur ekki verið rannsakað að ráði fyrr en nú með markvissu samstarfi vísindamanna við BTO, Háskóla Íslands og Spænska rannsóknaráðið (CISC). Meðal vísindamannanna og höfunda greinarinnar í Ibis, sem vakið hefur feiknaathygli, er Gunnar Þór Hallgrímsson, prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands.
Branduglan er þekkt sem varpfugl um mestalla Evrópu en útbreiðsla hennar er óstöðug. Talið er að óstöðugt fæðuframboð sé ástæðan en branduglur eru sérhæfðar í veiði nagdýra, eins og t.d. músa. Bráðin er háð allskyns ytri þáttum bæði eftir árstíma, veðurfari og landsvæðum. Þessi fæðuauðlind branduglunnar er því mjög óáreiðanleg og getur sveiflast mikið í tíma og rúmi. Þótt branduglan geti skipt yfir í aðra bráð ef nauðsyn krefur eru þó líklegri viðbrögð hennar að halda út í óvissuna í leit að einhverju betra. Það hefur hingað til verið flókið að rannsaka þetta rótleysi branduglunnar en tækniframfarir hafa gert Gunnari Þór Hallgrímssyni og félögum hans kleift að safna nýjum gögnum með GPS-ritum sem varpa ljósi á margt sem áður var hulið.
„Ég elska uglur og þær kveikja síendurtekið einhvern neista sem drífur mig áfram í að reyna að skilja líf þeirra. Þegar maður horfir framan í uglu þá skynjar maður strax dulúð og langar að vita meira. Laumulegir lífshættir ugla auka svo enn frekar á spennuna,“ segir Gunnar Þór um þennan magnaða fugl.
Ný GPS-tæki gjörbreyttu öllu
Gunnar Þór hefur unnið að merkingum á branduglum hérlendis í félagi við vísindafólk við Háskóla Íslands. Hann hefur fangað uglurnar á hreiðrum eða náð þeim í net á flugi og fest á þær nýjar gerðir smárra senditækja til að fylgjast með þeim í gegnum gervihnött og kortleggja búsvæðaval þeirra og ferðalög.
Ugla með sendi á bakinu. MYND/Gunnar Þór Hallgrímsson
Fuglarnir sem hafa verið merktir hér hafa verið víðförlir innanlands og jafnvel ekki allir haldið sig innan landsteina heldur flogið fram og aftur um álfuna. Það sama gerði samstarfsfólk Gunnars Þórs í Skotlandi og á Spáni. Fylgst var með ferðum 47 einstaklinga sem merktir voru í þessum löndum og reyndust ferðalögin ótrúleg. Fuglar merktir í Skotlandi og Spáni reyndust ekki bara víðförlir innan Evrópu heldur flugu sumir til Norður-Afríku. Fugl merktur á Íslandi flaug til Bretlandseyja og eftir að greinin var skrifuð þá flaug annar frá Íslandi til Noregs og verpti þar.
Í rannsókninni kom einnig í ljós að sömu varpfuglarnir búa sér gjarnan til hreiður mjög fjarri varpsvæðum sem þeir notuðu árið áður. Fjarlægðin á milli varpstaða sömu einstaklinga var ótrúleg eða á bilinu 41 til 4.216 kílómetrar! Ekki er vitað um nokkra aðra fuglategund þar sem sömu einstaklingar geta haft svo langt á milli hreiðra sinna.
„Ég elska uglur og þær kveikja síendurtekið einhvern neista sem drífur mig áfram í að reyna að skilja líf þeirra. Þegar maður horfir framan í uglu þá skynjar maður strax dulúð og langar að vita meira. Laumulegir lífshættir ugla auka svo enn frekar á spennuna,“ segir Gunnar Þór sem er hér með brandugluunga.
Far þessara fugla er því með talsvert öðru sniði en hjá öðrum farfuglum sem verpa hérlendis. T.d. er harla ólíklegt að brandugla sem verpti í Úlfarsfelli fyrir tveimur árum, verpi þar nokkrun tímann aftur miðað við gögn úr þessari rannsókn. Þannig voru tveir kvenfuglar merktir með aðeins tveggja kílómetra millibili á eyjunni Arran í Skotlandi árið 2021. Önnur uglan lagði á sig flug til að verpa í Norður-Noregi ári síðar og hin flaug til sömu erinda til Pechora Delta í norðurhéruðum Rússlands. Það kom líka á óvart í rannsókninni að kvenfugl sem merktur var á hreiðri sínu í Skotlandi vorið 2017 verpti tvisvar sumarið 2018, fyrst í Skotlandi og svo aftur í Noregi. Þessi vitneskja undirstrikar að huga verður að vernd fuglanna á breiðari grunni en áður var talið. Samræmd vöktun á branduglum þyrfti í raun að ná yfir alla álfuna ef ná ætti heildarsýn yfir stöðu stofnsins.
Fórnfýsi í þágu nýrra kynslóða
„Það kostar sitt að ferðast svona mikið í leit að hentugum varpsvæðum því að ferðalög á ókunnar slóðir eru hættuleg. En í sumum tilfellum eru ferðalögin áhættunnar virði því þá finna uglurnar svæði með nægu fæðuframboði og geta þannig komið mörgum ungum á legg eða loft öllu heldur. En þessi lífsstíll gerir það að verkum að einungis um helmingur fullorðinna fugla lifir árið af að jafnaði,“ segir vísindamaðurinn.
Annað í rannsókn Gunnars Þórs og félaga sem vakti mikla athygli var hegðun kvenfuglanna í uppeldinu. Í sextán af þeim átján skiptum þar sem varp heppnaðist þá yfirgaf kvenfuglinn óðalið og fjölskylduna áður en ungarnir urðu fleygir. Kvenfuglinn skildi þannig karlfuglinn eftir til að ljúka við uppeldið en uglukarlarnir bera fæðu í ungana þar til þeir eru orðnir alveg sjálfbjarga nokkrum vikum eftir að þeir verða fleygir.
„Það er ekki hægt að stoppa núna!“ segir Gunnar Þór aðspurður um framvinduna eða næstu skref í rannsókn á branduglum sem fáir sjá þótt þær verpi hér enda virðast þær hafa tilhneigingu til að vera utan þjónustusvæðis ef svo má að orði komast. Þær eru ekkert fyrir sviðsljósið.
„Þessi innsýn sem við fengum í stórbrotið líf branduglunnar með notkun GPS-tækjanna hefur vakið upp margar nýjar spurningar sem við verðum að leita svara við. Branduglurnar eru svo mikil ólíkindatól að þær munu vafalaust halda áfram að koma okkur á óvart.“