Fjölbreytt verkefni við HÍ fá stuðning úr Samstarfi háskóla
Háskóli Íslands kemur að langflestum þeirra verkefna 35 verkefna sem hlut styrk úr Samstarfi háskóla, sjóði á vegum stjórnvalda sem ætlað er að styðja við aukið samstarf íslenskra háskóla á öllum sviðum. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnti niðurstöður úthlutunarinnar í gær.
Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr Samstarfi háskóla en alls koma 1,6 milljarðar króna í hlut aðstandenda 35 verkefna sem skipt er í sex flokka:
- Sameining háskóla
- Stjórnsýsla, stoðþjónusta og nýtingu innviða
- Lausnir við samfélagslegum áskorunum
- Nýsköpun í háskólastarfi
- Alþjóðlega sókn íslenskra háskóla og alþjóðavæðingu
- Iðkun á þriðja hlutverki háskóla, svo sem með áherslu á lýðræðislega umræðu, íslenskunám og fjölgun nema í háskólum með áherslu á fjölbreytni
Alls kemur HÍ að 31 að þeim 35 verkefnum sem hljóta styrk að þessu sinni.
Tæplega 300 milljónir til samstæðu HÍ og HH
Í flokki sameiningar fá Háskóli Íslands og Háskólinn á Hólum 200 milljónir til að undirbúa stofnun háskólasamstæðu þar sem HÍ verður flaggskipsháskóli samstæðunnar og HH sjálfstæður „kampus“ með starfsemi á Hólum og Sauðárkróki, eins og segir á vef háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Enn fremur er skólunum úthlutað fé til þriggja verkefna, um 30 milljónum til hvers. Þau snúast um að koma á fót vettvangsakademíu á sviði íslenskrar fornleifafræði, minjaverndar og menningararferðaþjónustu í Mývatnssveit, samstarf um ferðamálanám og uppbyggingu þverfaglegs meistaranáms í sjálfbærri byggðafræði.
Þá hljóta verkefni sem miða að því auðvelda nemendum að stunda meistaranám við fleiri en einn háskóla og sameiginlega doktorsleiðbeinendaþjálfun háskólanna styrk auk þess sem HÍ er meðal þeirra stofnana sem fá styrk til að efla hermisetur í heilbrigðisvísindum, innviði og gagnasöfn á sviði hugvísinda og félagsvísinda og miðlun fræðandi efnis um jafnréttismál, svo fátt eitt sé nefnt.
Nýjar námsleiðir tengdar heilbrigðisvísindum, listum og landbúnaði
Af nýjum námsleiðum í samstarfi HÍ og fleiri skóla, sem hljóta styrk að þessu sinni, má nefna nám í málefnum fólks með heilabilun, sérfræðinám í klínískri taugasálfræði, rannsóknanám í listum og listfræði og sjálfbærum landbúnaði og byggðarþróun. Þá fá verkefni sem tengjast máltæknilausnum í stafrænum heilbrigðisvísindum, nýjum lausnum fyrir heilbrigðiskerfið, innleiðingu raunfærnimats til styttingar á námi, greiðari aðgangi innflytjenda og fólks með þroskahömlun að háskólanámi og samfélagslegri nýsköpun stuðning. Enn fremur er ætlunin er að setja á laggirnar samstarfsvettvang fyrir íslenska háskóla sem taka þátt í evrópskum háskólanetum, eins og Aurora, með stuðningi Samstarfs háskóla.
„Stefna okkar er að vera í öflugu samstarfi bæði innanlands og utan. Starfsfólk HÍ hefur lagt sig fram um að sækjast eftir stuðningi fyrir innlend samstarfsverkefni og uppsker ríkulega. Þessi stuðningur fyrir umbótaverkefni í samstarfi við innlenda háskóla er mikilvægur fyrir háskólastarfið,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og þakkar fyrir stuðninginn sem skólinn fær til samstarfsverkefnanna.
Yfirlit yfir þau verkefni sem hljóta stuðning er að finna á vef háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.