Skip to main content
18. mars 2024

Mikilvægar ádeilur í Star Trek og Harry Potter

Mikilvægar ádeilur í Star Trek og Harry Potter - á vefsíðu Háskóla Íslands

Á námskeiðinu Galdrar og geimverur hjá Endurmenntun Háskóla Íslands fjalla Ármann Halldórsson, ensku- og heimspekikennari við Verslunarskóla Íslands, og dr. Sveinn Guðmundsson, mannfræðingur og jafnréttisfulltrúi við Háskóla Íslands, um dægurmenningarfyrirbærin Star Trek og Harry Potter sem hafa bæði notið mikilla vinsælda. Rýnt verður í samfélagsmál í gegnum linsu þeirra.

Á fjórum kvöldum verður farið í Star Trek og Harry Potter heimana og þeir skoðaðir saman og í sitthvoru lagi. Kafað verður ofan í það hvernig dægurmenning getur dregið fram umdeild málefni samfélagsins og virkað þannig sem ákveðið breytingarafl. Einnig er fjallað um aðdáendamenningu og samspil þeirra heima sem skapaðir eru í verkunum, virkni aðdáenda og hvernig hún birtist á ólíka vegu í tengslum við Harry Potter annars vegar og Star Trek hins vegar.

Ármann segist alla tíð hafa verið aðdáandi og lesandi fantasíubókmennta af öllu tagi og kannski sérstaklega Tolkiens. „Ég kom frekar seint inn í Harry Potter eða með því að lesa bækurnar á íslensku fyrir dætur mínar þannig að þegar ég var búinn að lesa allar bækurnar í tvígang upphátt (á íslensku reyndar!) var ég kominn býsna vel inn í þennan heim.“

Hugmyndin um að búa til valáfanga um þetta hafi kviknað upp úr því og hann gerði það svo í samstarfi við Helgu Benediktsdóttur sem kennir með honum í Versló. „Við nýttum ýmsar skemmtilegar aðferðir við að flétta leik og ýmsum áhugaverðu inn í áfangann en kjarni hans er ferð til London og í Warner Bros Studios. Það eru ótrúlega margir möguleikar til að fjalla um ýmis álitamál og samfélagsmál í gegnum þessi verk og kannski má líka segja að þau séu skemmtilega ófullkomin sem gefur líka tækifæri til alls konar bollalegginga.“

Áfangann hefur Ármann kennt í Verzló í fjögur ár og ýmsar hugmyndir og aðferðir sem notaðar eru þar hafa nýst í kennslunni. Einnig séu mörg tækifæri til að vísa í verkin í tengslum við ýmsar aðstæður. 

Vitsugurnar dæmi um baráttu við þunglyndi

Spurður telur Ármann margvísleg tækifæri í glímunni við Harry Potter heiminn sem séu dæmi um eitthvað mannbætandi. „Það má kannski sérstaklega nefna átök Harrys við svokallaðar vitsugur og vörnina gegn þeim sem er að gera svokallaðan Patronus. Þessi skrímsli og vörnin eru kraftmikil myndlíking fyrir baráttu við þunglyndi, þar sem hugmyndin er að berjast gegn ásókn þunglyndis með því að virkja innri kraft og þakklæti fyrir góða hluti í lífi manns. Þessi fyrirbæri eru sérstaklega áhugaverð því þau eru að all nokkru leyti mjög frumleg sköpun Rowling sjálfrar. Ekki er hægt að sleppa fram hjá vandræðunum vegna tjáningar Rowling um málefni trans fólks, þar sem hún að mínu mati hefur ratað í miklar ógöngur og á að ýmsu leyti skilið mikið af þeirri gagnrýni sem hún hefur sætt, en mitt mat er að verkin standi fyrir sínu og að með því að takast á við orðræðu hennar sé tækifæri til að opna augu fólks gagnvart þessu mikilvæga mannréttindamáli.“

Aðdáendahópur á heimsvísu Harry Potter er gríðarlega stór en samkvæmt upplifun Ármanns í gegnum kennslu og miðlun á þessu efni segir hann að aðdáunin beinist fyrst og fremst að kvikmyndunum og yngri aðdáendur komi að heiminum fyrst og fremst í gegnum þær. „Þannig að með því að beina fólki á þá braut að lesa bækurnar verður upplifun þeirra á heiminum mun auðugri. Ég held að því miður hafi hin ömurlega krossferð höfundarins gegn réttindum trans fólks dregið úr stærð aðdáendahópsins og mögulega beint sumum annað, kannski til að kanna himingeiminn og að fara af hugdirfsku þanagað sem enginn hefur áður komið!“

 

Ármann Halldórsson og Sveinn Guðmundsson rýna í samfélagsmál í gegnum dægurmenningarfyrirbærin Star Trek og Harry Potter í nýju námskeiði hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. MYND/Olga Björt Þórðardóttir

Star Trek ádeila á ójöfnuð í vestrænu samfélagi

Sveinn sá Star Trek fyrst þegar það var sýnt á RÚV þegar hann var unglingur. Honum fannst það skrýtið fyrst en datt svo inn í það. „Ég áttaði mig ekki strax á því hvað það var við þættina sem dró mig að þeim en þeir eru blanda af sæfæ (vísindaskáldkapur, e. scifi), félagsvísindum, siðfræði, jafnréttismálum og alls konar fleira í geimsápuóperuformi. Eftir á að hyggja held ég að boðskapur þáttanna um að það sé björt framtíð í boði fyrir mannkynið hafi höfðað til mín þó ég hafi ekki áttað mig á því á sínum tíma,“ segir hann.

Vísindaskáldsögur séu frábær vettvangur til að setja fram hugleiðingar og vangaveltur um stóra hluti og mál eins og jafnrétti kynjanna, rasisma, hómófóbíu, ableisma og fleira. „Þannig hefur Star Trek alveg frá upphafi á sjöunda áratugnum náð að lauma inn ádeilu á ójöfnuð í vestrænu samfélagi í gegnum þættina. Þeir komust í gegnum nálarauga bandarísku sjónvarpsstöðvanna af því að skilaboðin voru sett fram undir rós eða í myndlíkingum. Einnig held ég að vegna þess að þetta gerist út í geimnum í framtíðinni í samskiptum við verur frá öðrum hnöttum að þá hafi sjónvarpstöðvarnar ekki tekið þættina alvarlega eða rýnt í sögurnar sem eru stundum afar róttækar miðað við tímann.“

Vinnur að rannsókn meðal Star Trek aðdáenda á Íslandi

Spurður um hvernig hann notar þessi fræði í lífi og svarfi segir Sveinn að í fyrsta lagi sé afar sterk hugmyndafræði í Star Trek um að fagna fjölbreytileikanum og hann tengi það mikið við mannfræðina sem er hans bakgrunnur. „Að fræðast um ólík menningarsamfélög og rýna í hvað er sameiginlegt og hvað ekki, hvað við getum lært af öðrum samfélögum um okkur sjálf og eigin samfélag. Þannig að Star Trek er á ákveðinn hátt mannfræði geimsins. Svo er ég er að vinna að rannsókn meðal Star Trek aðdáenda á Íslandi svo að Star Trek er að koma inn á ýmsa þætti í lífi mínu. Mig langar til að heyra hvernig ólíkt fólk upplifir þættina og boðskapinn á bak við þá og einmitt hvort Star Trek hafi haft áhrif á líf þeirra en erlendar rannsóknir sýna einmitt fram á það.“

Um 600 manns eru á íslensku Star Trek aðdáendasíðunni á Facebook og íslenskur Star Trek klúbbur tilheyrir opinbera alþjóðlega klúbbnum. Eitt það áhugaverðsta við Star Trek segir Sveinn vera aðdáendurnir. „Þau hafa myndað frá upphafi afar sterkt samfélag, stofnað aðdáendaklúbba sem vinna í anda hugmyndafræði þáttanna um jöfnuð allra óháð stöðu, stétt, kyni, kynhneigð, litarhætti eða ó/fötlun. Klúbbarnir sinna góðgerðarmálum og vinna að því að skapa jafnari framtíð á stóra og smáa vegu.“

Svo grunar Svein að það sé slatti af Trekkurum þarna úti, að horfa, hvert í sínu horni, enda hafi þættirnir og kvikmyndirnar verið í gangi með hléum síðan árið 1966. „Einstaka sinnum hafa verið uppákomur hérlendis þar sem hluti af hópnum hittist, heldur bíósýningu og mætir í búningum úr þáttunum. Ég held að Star Trek geti verið afar mikilvægt þeim sem að hafa áhuga á því. Fólk er að horfa aftur og aftur á þættina, soldið eins og margir aðrir gera með Friends, þættirnir geta orðið eins konar huggunarefni eða sjónvarpsvinir sem hægt er að leita til þegar þess þarf,“ segir hann að endingu.

Hér eru nánari upplýsingar um námskeiðið og skráning.

Ármann Halldórsson og Sveinn Guðmundsson